
Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis og fræðsludeildar hjá Samgöngustofu, segist ekki vera með skýringar á þessari þróun en bendir á að slysum hafi fjölgað mikið yfir vetrartímann árið 2015. Aðstæður í umferðinni yfir vetrartímann séu mun erfiðari en á sumrin. „Margir sem koma á sumrin lenda í aðstæðum sem þeir þekkja ekki, þröngum vegum og lausamöl. En á veturna er þetta oft enn þá meira framandi,“ segir hann.
Þegar rýnt er í upplýsingar um ástæður slysa má sjá sjá að 73 prósent erlendra ferðamanna sem lenda í slysum keyra út af eða velta bílnum. Aðrir sem slasast keyra út af eða velta bílnum í einungis 23 prósentum tilvika.
„Ástæðan fyrir þessu er sú að erlendir ferðamenn eru nánast bara að keyra í dreifbýli á meðan Íslendingar aka nánast bara í þéttbýli. Útafakstur og bílveltur eru mjög dæmigerð dreifbýlisslys,“ segir Gunnar Geir.
Hann segir þessa niðurstöðu sýna að ýmislegt megi bæta við vegakerfið til þess að bæta umferðaröryggi. Til dæmis séu vegrið ekki nógu víða. „Þetta er auðvitað eitt af því sem þarf að laga og að umhverfi veganna sé þannig að það liggi ekki dauðarefsing við því að aka út af, eins og sums staðar er,“ segir Gunnar Geir.
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hefur til skoðunar hvort mögulegt sé að leggja gjald á notkun nagladekkja. Gunnar Geir segir umræðuna um nagladekk vera flókna. „Slysin á erlendum ferðamönnum eru 95 prósent í dreifbýli enda fer akstur þeirra langmest fram í dreifbýli. Af 223 slösuðum útlendingum voru 11 sem slösuðust í þéttbýli. Það setur þetta í samhengi og það er alveg glórulaust ef bílaleigum yrði bannað að hafa nagladekk undir bílum sínum. Umræðan um nagladekk í borginni er síðan allt annars eðlis. Það þarf að passa að setja þetta ekki allt saman undir sama hatt,“ segir hann.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.