Körfubolti

Sigurganga Miami og Washington heldur áfram | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Klay Thompson setti niður átta þrista gegn Memphis.
Klay Thompson setti niður átta þrista gegn Memphis. vísir/getty
Níu leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Klay Thompson skoraði 36 stig þegar Golden State Warriors bar sigurorð af Memphis Grizzlies á útivelli, 107-122.

Draymond Green var með afar sérstaka þrennu í liði Golden State. Hann skoraði aðeins fjögur stig í leiknum en tók 12 fráköst, gaf 10 stoðsendingar og stal 10 boltum. Þá varði Green fimm skot.

Golden State er á toppnum í Vesturdeildinni með 45 sigra og átta töp.

Ótrúleg sigurganga Miami Heat heldur áfram en í nótt vann liðið níu stiga sigur, 99-108, á Brooklyn Nets.

Þetta var þrettándi sigur Miami í röð en liðið nálgast óðfluga sæti í úrslitakeppninni.

James Johnson skoraði 26 stig af bekknum hjá Miami og Goran Dragic skilaði 21 stigi. Alls skoruðu varamenn Miami 56 stig í leiknum.

Kawhi Leonard skoraði 32 stig þegar San Antonio Spurs vann Detroit Pistons á útivelli, 92-103.

Miðherjinn Dewayne Dedmon skoraði 17 stig og tók 17 fráköst í liði San Antonio sem er í 2. sæti Vesturdeildarinnar.

Þá vann Washington Wizards sinn níunda sigur í síðustu 10 leikjum þegar liðið lagði Indiana Pacers að velli í höfuðborginni, 112-107.

Markieff Morris og John Wall skoruðu 26 stig hvor fyrir Washington. Sá síðarnefndi gaf einnig 14 stoðsendingar.

Washington er í 3. sæti Austurdeildarinnar.

Úrslitin í nótt:

Memphis 107-122 Golden State

Brooklyn 99-108 Miami

Detroit 92-103 San Antonio

Washington 112-107 Indiana

NY Knicks 123-131 Denver

Milwaukee 114-122 LA Lakers

Minnesota 106-122 New Orleans

Sacramento 108-107 Atlanta

Phoenix 115-97 Chicago

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×