Körfubolti

Grindavíkurstelpan má loksins spila með sínu liði | 55 daga bið á enda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Petrúnella Skúladóttir og félagar hafa verið án bandarísks leikmanns í tvo mánuði en það breytist í kvöld.
Petrúnella Skúladóttir og félagar hafa verið án bandarísks leikmanns í tvo mánuði en það breytist í kvöld. Vísir/Stefán
Angela Marie Rodriguez, nýr bandarískur leikmaður Grindavíkur, spilar sinn fyrsta leik í kvöld þegar liðið tekur á móti Njarðvík í Mustad höllinni í Grindavík.  

Það hefur reynt á þolinmæðina að bíða eftir leikheimild fyrir stelpuna en hún átti að leysa af Ashley Grimes sem tilkynnti óvænt milli jóla og nýárs að hún myndi ekki koma aftur til Íslands eftir jólafríið.

Körfuknattleiksdeild Grindavík þurfti því að hafa hraðar hendur við að finna nýjan bandarískan leikmann. Það gekk vel að finna leikmanninn en þeim mun verr að fá leikheimild.

Grindvík tilkynnti að Angela Marie Rodriguez tæki við hlutverki Ashley Grimes 12. janúar síðastliðinn. „Ekki er búið að ganga frá allri pappírsvinnu fyrir Angelu og því litlar líkur á að hún nái bikarleiknum gegn Keflavík um helgina,“ sagði í frétt um nýjan leikmann á heimasíðu Grindavíkur 12. janúar.

Angela Marie Rodriguez fékk ekki leikheimild fyrr en 54 dögum síðar. Hún missti því ekki aðeins af umræddum bikarleik á móti Keflavík 14. janúar heldur níu deildarleikjum til viðbótar.

Grindavík tapaði öllum þessum tíu leikjum og er nú eitt á botninum með núll stig út úr síðustu þrettán leikjum sínum.

Angela sem getur bæði leyst stöðu skotbakvarðar og liðstjórnanda lék háskólabolta í Bandaríkjunum með Milwaukee Panthers en hún var fyrirliði liðsins síðasta tímabilið sitt, 2013-2014, þar sem hún var með 17,1 stig, 5,6 stoðsendingar og 3,3 fráköst að meðaltali í leik. Greinilega hörkuleikmaður sem hefur síðan atvinnumannareynslu frá Póllandi, Þýskalandi og Rúmeníu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×