Innlent

Fjárframlög í Safetravel verkefnið stóraukin

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Safetravel verkefninu er ætlað að tryggja öryggi ferðamanna.
Safetravel verkefninu er ætlað að tryggja öryggi ferðamanna. vísir/vilhelm
Ráðherra ferðamála og formaður Samtaka ferðaþjónustunnar skrifuðu í dag undir samstarfssamning við Slysavarnafélagið Landsbjörg sem felur í sér stóraukinn stuðning við verkefnið Safetravel.

Meðal þeirra verkefna sem stefnd er að því að efla á grundvelli samningsins eru hálendisvakt Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, skjáupplýsingakerfi ferðamanna og upplýsingamiðstöð Safetravel, meðal annars með lengri viðveru starfsmanna.

Þá á að efla vefinn Safetravel.is , meðal annars með þýðingu á akstursefni vefsins á kínversku, en árið 2015 voru Kínverjar efstir á ilsta yfir fjölda ferðamanna sem slösuðust í umferðinni hér á landi.



Samningurinn, sem er til þriggja ára, hljóðar upp á 35 milljónir króna á ári til viðbótar við framlag Slysavarnafélagsins Landsbjargar í formi fjármuna og vinnu af hálfu sjálboðaliða félagsins.

Ráðuneyti ferðamála leggur fram 25 milljónir króna á ári en lagði til samanburðar fram 16 milljónir á liðnu ári. Samtök ferðaþjónustunnar auka sitt framlag úr 6 milljónum árið 2016 í 10 milljónir á ári. Auk þess styður Icelandair Group verkefnið.

„Öryggi og slysavarnir, ekki síst með góðri upplýsingagjöf og fræðslu, eru eitt af forgangsmálum ferðaþjónustunnar og það er ánægjulegt að undirstrika það hér með afgerandi hætti. Það er okkur dýrmætt í þessu sambandi að geta nýtt þá framúrskarandi fagmennsku, metnað og þekkingu sem Slysavarnafélagið Landsbjörg býr yfir,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, í tilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×