Fótbolti

Hlutur Evrópu skerðist ef fjölgað verður í 48 þjóðir á HM í fótbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
HM-bikarinn.
HM-bikarinn. Vísir/Getty
Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur gefið út tillögur sínar á skiptingu HM-sæta milli álfa, verði eins og allt stefnir í, liðum fjölgað úr 32 í 48 á heimsmeistaramótinu í fótbolta.

Evrópa hefur fengið þrettán sæti í síðustu heimsmeistarakeppnum en fær nú sextán sæti frá og með HM 2026. 13 af 32 sætum er 41 prósent þátttökuþjóða en 16 af 48 liðum er „aðeins“ 33 prósent af þáttökuþjóðunum. Hlutur Evrópu skerðist því talsvert ef fjölgað verður í 48 þjóðir á HM í fótbolta

Eyjaálfa fengi meðal annars eitt öruggt sæti og þá verður sex þjóða umspil milli liða úr mörgum álfum þar sem tvö laus sæti verða í boði. Evrópa gæti tryggt sér eitt aukasæti þar og komið prósentuhlutfalli sínu upp í 35 prósent.

Fyrsta 48 þjóða heimsmeistarakeppnin ætti að fara fram árið 2026 en næstu tvö heimsmeistaramót munu innihalda 32 þjóðir og fara fram í Rússlandi 2018 og í Katar 2022.

Skiptingin á HM 2026 yrði annars þannig: Evrópa 16 sæti, Afríka 9 sæti, Asía 8 sæti, Suður-Ameríka 6 sæti, Norður- og Mið-Ameríka 6 sæti og Eyjaálfa 1. sæti.

Alls 46 sæti en tvö síðustu sætin færu síðan til tveggja efstu þjóðanna í álfu-umspilinu. Umspilið færi fram hjá þeirri þjóð sem heldur úrslitakeppni HM og myndi líklega fara fram í nóvember árið fyrir HM.

Sætið sem gestgjafarnir fá í úrslitakeppni HM 2026 myndi vera eitt af þeim sætum sem þeirra álfa á í keppninni.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×