Þetta vitum við um árásina:
- Talsmenn lögreglu og yfirvalda í Stokkhólmi segja að fjórir séu látnir og tíu slasaðir. Fjórir hinna slösuðu er haldið á gjörgæslu. Eitt barn er í hópi hinna slösuðu, en á ekki í lífshættu. Þrjú hinna látnu létust á Drottninggatan, og einn á sjúkrahúsi.
- Maður var handtekinn í Märsta, úthverfi norður af Stokkhólmi, í gærkvöldi, eftir að lögreglu barst ábending um að maður í verslun hagaði sér undarlega. Hann var með glerbrot á fatnaði sínum og gríma fannst í fórum hans. Lögregla telur að um árásarmanninn sé að ræða, en hann á að hafa viðurkennt að hafa átt þátt í árásinni.
- Sænskir fjölmiðlar segja að annar maður hafi einnig verið handtekinn, en sá á að vera skráður til heimilis á sama stað og meintur árásarmaður. Að sögn Expressen hefur honum nú verið sleppt.
- Sænskir fjölmiðlar hafa eftir heimildum sínum innan lögreglan að taska með heimagerðri sprengju hafi fundist í tösku í vörubílnum.
- Aftonbladet segir að árásarmaðurinn sé 39 ára maður frá Úsbekistan sem hafi á Facebook-síðu sinni meðal annars birt áróðursmyndband frá ISIS. Hann var skráður til heimilis í úthverfi Stokkhólms.

- Sænsk yfirvöld hafa ákveðið að herða landamæraeftirlit með öllum þeim sem eru á leið inn og út úr landinu næstu tuttugu dagana. Möguleiki verður á framlengingu um tuttugu daga til viðbótar.
- Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði skömmu eftir árásina í gær að ráðist hefði verið á landið og að allt benti til að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða. Í gærkvöldi sagði hann svo að Svíar stæðu saman í sorginni, en einnig reiðinni. Hann beindi þó þeim orðum til árásarmanna að þeim muni ekki takast að kúga Svía eða stjórna lífi þeirra. „Þið munið aldrei sigra.“
- Viktoría krónprinsessa og Daniel prins heimsóttu árásarstaðinn í morgun og lögðu niður blómvönd til að heiðra minningu hinna látnu. Karl Gústaf konungur er staddur erlendis.
- Lögregla í Stokkhólmi hefur hvatt almenning til að forðast miðborg Stokkhólms í dag, þar sem áfram verður stórt svæði girt af. Yfirvöld vara við að búast megi við miklum töfum í umferðinni í sænsku höfuðborginni í dag.
- Lögregla mun halda blaðamannafund klukkan 11:30 að íslenskum tíma þar sem greint verður frekar frá framvindu rannsóknarinnar.
- Árásarmaðurinn rændi vörubíl ofarlega á Drottningargötunni þegar bílstjórinn var að afferma vörur. Hann ók svo niður götuna, um 550 metra leið, utan í gangandi vegfarendur þar til að vörubílnum var ekið inn í verslun Åhlens City. Hann flúði síðan af vettvangi og hélt upp í lest.
- Lögregla verður að fara fram á gæsluvarðhald yfir manninum fyrir klukkan 12 á þriðjudag að staðartíma. Ekki er útilokað að fleiri verðir handteknir.