Spá um storm og hríðarveður á fjallvegum virðist ætla að ganga eftir í öllum meginatriðum samkvæmt veðurfræðingi hjá Vegagerðinni.
Stormurinn byrjar vestan- og suðvestanlands með snjókomu á Snæfellsnesi og sunnanverðum Vestfjörðum um og fyrir hádegi.
Efst á Hellisheiði og Mosfellsheiði verður snjóbylur með 16-20 m/s frá því um kl. 12 til 14 en hlánar þar undir kvöld. Hviðurveður í SA-áttinni undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi, 30-35 m/s þegar líður á morguninn en allt að 40-45 m/s frá því um hádegi og nær hámarki síðdegis.
Á Steingrímsfjarðarheiði, Holtavörðuheiði, Bröttubrekku, Þverárfjalli og Öxnadalsheiði versnar veður með skafrenningi og ofankomu, einkum upp úr kl. 15 til 16. Þá verður einnig blint með köflum á Möðrudalsöræfum þegar líður á daginn.
Þá er óveður á Kjalarnesi og Grindavíkurvegi. Vegir eru nær greiðfærir á Suðurlandi en byrjað er að élja. Á Vesturlandi er víðast autt en hálkublettir eru á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku.
Vetrarfærð er á flestum fjallvegum á Vestfjörðum en víðast greiðfært á láglendi. Snjóþekja er á Hrafnseyrarheiði en þæfingsfærð á Dynjandisheiði. Snjóþekja og hálka er á veginum norður í Árneshrepp.
Víðast er autt á Norðurlandi en þó hálka eða hálkublettir á fáeinum köflum, aðallega á útvegum. Á Austurlandi er á köflum hálka eða hálkublettir. Þungfært er á Vatnsskarði eystra og Breiðdalsheiði. Ófært er á Öxi og í Vattarnesskriðum.
