Fram braut blað í sögu úrslitakeppni karla í handbolta þegar liðið vann Íslandsmeistara Hauka, 45-47, í oddaleik í 8-liða úrslitum í gær.
Fram hefur komið gríðarlega á óvart í vetur en fyrir tímabilið bjuggust flestir við því að liðið færi niður í 1. deild, enda búnir að missa marga leikmenn frá tímabilinu á undan.
Fram skaust upp í 6. sæti Olís-deildarinnar með sigri á Gróttu í lokaumferðinni og fékk að launum leiki við Íslandsmeistarana í 8-liða úrslitum.
Frammarar voru ekkert hættir og gerðu sér lítið fyrir og sendu Hauka í sumarfrí eftir sigur í vítakastkeppni í gær.
Þetta er í fyrsta skipti í átta liða úrslitakeppni sem Íslandsmeistarar falla úr leik fyrir liði sem endaði jafn neðarlega í deildakeppninni og Fram gerði í ár.
Raunar hefur það bara sjö sinnum gerst í sögu úrslitakeppninnar að lið sem endar í 6. sæti eða neðar komist áfram í undanúrslit.
Það gerðist tvisvar í ár en Valur, sem endaði í 7. sæti Olís-deildarinnar, sló liðið í 2. sæti, ÍBV, einnig út í gær.
Fram og Valur mætast einmitt í undanúrslitunum þar sem Frammarar eru með heimaleikjaréttinn, þrátt fyrir að hafa endað í 6. sæti í Olís-deildinni.
Lið 6. sæti og neðar áfram í gegnum 8-liða úrslit:
ÍR 1993 (6. sæti) - sló Stjörnuna (3.) út 2-0
KA 1995 (6. sæti) - sló Stjörnuna (3.) út 2-1 og fór alla leið í úrslit
Afturelding 1996 (6. sæti) - sló Stjörnuna (3.) út 2-1
FH 1999 (7. sæti) - sló Stjörnuna (2.) út 2-1 og fór alla leið í úrslit
Valur 2001 (7. sæti) - sló Fram (2.) út 2-0
Fram 2017 (6. sæti) - sló Hauka (3.) út 2-1
Valur 2017 (7. sæti) - sló ÍBV (2.) út 2-1

