Körfubolti

Enginn flótti frá kvennaliði Hauka í ár eins og í fyrra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Vísir/Ernir
Körfuknattleiksdeild Hauka hefur gengið frá fullt af samningum við leikmenn kvennaliðs félagsins fyrir næsta tímabil í Domino´s deild kvenna. Haukarnir pössuðu upp að lenda ekki í því saman og fyrir ári síðan.

Landsliðsfyrirliðinn og besti leikmaður Domino´s deildarinnar 2015-16, Helena Sverrisdóttir, er komin til baka eftir barnseignafrí og verður með á fullu á næsta ári.  

Helena lék tvo síðustu leiki Hauka á síðasta tímabili aðeins rúmum mánuði eftir að hún átti barn. Helena var með 13,0 stig og 6,5 fráköst á meðaltali á 18,6 mínútum í þeim.

Haukarnir hafa einnig gert samning við allar ungu stelpur liðsins en það var gengið snemma frá öllum endum á Ásvöllum í ár.  Það átti ekki að láta það endurtaka sig sem gerðist í fyrra þegar Haukarnir misstu frá sér nánast heilt lið í önnur lið eins og Skallagrím og Stjörnuna.

Sólrún Inga Gísladóttir (8,5 stig í leik) verður þó ekki með Haukaliðinu næsta vetur því hún er á leiðinni í nám erlendis. Allar aðrar hafa samið við Hauka og þar á meðal eru þrjár stelpur sem stóðu sig mjög vel í leiðtogahlutverkum í vetur.

Þóra Kristín Jónsdóttir átti flott tímabil og var með 9,1 stig,  5,9 fráköst, 5,6 stoðsendingar og 3,0 stolna bolta í leik. Þóra var bæði efst í stoðsendingum og stolnum boltum í leik að íslensku leikmönnum deildarinnar.

Rósa Björk Pétursdóttir sprakk út á sínu fyrsta alvöru tímabili í úrvalsdeild og var með 10,5 stig, 5,3 fráköst og 2,7 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Dýrfinna Arnardóttir var líka mikilvæg liðinu með 8,6 stig og 3,6 fráköst að meðaltali í leik.

Haukarnir náðu að halda sæti sínu í Domino´s deildinni eftir góðan endasprett en liðið hafði þar betur í baráttunni við Grindavík sem féll í 1. deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×