Flugvél rann út af flugbraut á Keflavíkurflugvelli
Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Slæmt skyggni er á vellinum.Mynd/Metúsalem Björnsson
Flugvél Primera Air rann út af flugbraut á Keflavíkurflugvelli við lendingu um fimmleytið. Vélin var að koma frá Alicante á Spáni. Enginn slasaðist og er talið að flugvélin sé í lagi.
Samkvæmt farþega í vélinni var fólki vel brugðið en að allir farþegar séu rólegir núna. Rúta sé á leiðinni til að ferja farþega inn í flugstöðina.
Töluverður viðbúnaður var á vellinum og voru farþegar ferjaðir með rútu í flugstöðina.Mynd/Metúsalem Björnsson„Samkvæmt mínum upplýsingum er enginn slasaður og vélin í lagi. Hún rann út af flugbrautinni og það er mikil snjókoma á Keflavíkurflugvelli,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við Vísi.
Hann segir að rannsóknarnefnd samgönguslysa sé komin í málið.
Uppfært 18:32:
Farþegar eru nú að yfirgefa vélina.
„Takk fyrir þolinmæðina og gott að enginn meiddist," sagði flugfreyjan og varaði við hálum tröppum. Ferja á farþega í flughöfn og svo verður flugvélin dregin að flugstöðinni.