Á meðan ofurlið KR sýndi loksins allar sínar bestu hliðar voru Grindvíkingar heillum horfnir. Þeirra aðalmaður, Lewis Clinch, var meðvitundarlaus og skoraði sitt fyrsta stig ekki fyrr en í lok þriðja leikhluta. Þá var leikurinn löngu búinn.
Sýndu sig á stóra sviðinu

Fyrirliðinn Brynjar Þór Björnsson fór fyrir sínu liði en hann elskar stóru leikina. Hann sýndi það enn eina ferðina í gær með mögnuðum leik. Það lögðu allir sín lóð á vogarskálarnir í gær. Engir farþegar. Einfaldlega besta körfuboltalið landsins að sýna þjóðinni hvað það er gott.
Það sem hlýtur að gera þennan einstaka árangur KR-liðsins enn sætari en ella fyrir félagið er sú staðreynd að liðið er borið uppi af uppöldum KR-ingum. Útlendingurinn er í aukahlutverki og í raun gæti KR stillt upp alíslensku byrjunarliði ef Kristófer Acox væri settur í liðið. Þessir titlar eru stór rós í hnappagat uppeldisstarfs KR-inga sem er augljóslega til mikillar fyrirmyndar.
Grindvíkingar eiga skilið klapp á bakið fyrir sína frammistöðu í vetur þrátt fyrir þessa útreið. Liðið er búið að gefa öllum langt nef í vetur og það var ekki lítið afrek hjá þeim að komast í þennan oddaleik gegn KR. Er upp var staðið var verkefnið einfaldlega of stórt engu að síður.
Loksins á heimavelli

„Ég trúði því varla er ég frétti að stúkan væri full tveimur tímum fyrir leik og það var ólýsanlegt að labba út í upphitun og síðan spila leikinn í þessari umgjörð. Það er alltaf verið að tala um hvað við séum rosalega góðir og það síast inn. Þá kemur deyfð. Við erum eiginlega fórnarlömb okkar eigin árangurs. Við höfðum gaman af þessu og þegar sviðið verður svona stórt þá höfðum við rosalega gaman af þessu.“
Brynjar segir að það hafi ekki verið neitt stress þó svo liðið hafi verið að spila illa í síðustu leikjum. Sjálfur elskar hann stóru leikina og sýndi það í kvöld með því að vera stigahæstur á vellinum með 23 stig.
„Þetta eru síðustu forvöð hjá mér að spila svona leiki og það er því eins gott fyrir mig að njóta þess. Þetta var einstakur viðburður þessi leikur fyrir framan uppseldu húsi. Það er mikið afrek að vinna þetta fjögur ár í röð. Síðustu fjórir titlar dofna í samanburði við þennan. Þessi var rosalega sætur.“