Angela Merkel Þýskalandskanslari mun taka á móti Emmanuel Macron, verðandi Frakklandsforseta, í Berlín á mánudag. Frá þessu greindi talsmaður Merkel í dag.
Macron var kjörinn forseti Frakklands síðastliðinn sunnudag og tekur formlega við embættinu nú á sunnudag. Hann mun því halda í sína fyrstu opinberu heimsókn til útlanda daginn eftir embættistökuna.
Merkel fagnaði sigri Macron á Marine Le Pen, forsetaefnis Þjóðfylkingarinnar, í síðari umferð forsetakosninganna. „Macron ber vonir milljóna Frakka á herðum sér og sömuleiðis vonir margra Þjóðverja og Evrópumanna,“ sagði Merkel að því tilefni.
