Ljósbogaofn verksmiðju United Silicon stöðvaðist á þriðjudagskvöld vegna þess að eitt af rafskautum ofnsins brotnaði.
Samkvæmt tilkynningu fyrirtækisins má búast við slíku við uppkeyrslu. Viðgerð tók nokkurn tíma og af þeim sökum barst lykt frá verksmiðjunni á meðan á ofnstoppi stóð. Ofninn var svo gangsettur að nýju á miðvikudag.
Samkvæmt tilkynningunni mun taka tíma að ná jöfnum og stöðugum rekstri eftir svo langa rekstrarstöðvun. Endurræsingin hefur í stórum dráttum gengið, þrátt fyrir brotið ofnskaut, eftir áætlun. Um leið og ofninn mun ná fullum hita að nýju á að draga úr lykt frá verksmiðjunni. Umhverfisstofnun og bæjaryfirvöldum er haldið upplýstum um allt sem gerist í rekstri ljósbogaofnsins á meðan á þessari uppkeyrslu stendur.
Norska loftrannsóknarstofnunin NILU sinnir mælingum á loftgæðum inni í verksmiðjunni og í nágrenni hennar, þar á meðal á einu heimili í Reykjanesbæ. Markmið mælinga er að fá óyggjandi vissu um hvaða efni geti borist frá verksmiðjunni við ólíkar aðstæður og í hvaða magni, svo unnt sé að grípa til viðeigandi aðgerða í framhaldinu.

