150 þúsund nýir meðlimir sagðir hafa gengið í Verkamannaflokkinn

Richard Burgon, þingmaður Verkamannaflokksins, sagði að gríðarleg aukning hefði orðið á skráningu í flokkinn eftir að Íhaldsflokkur forsætisráðherrans, Theresu May, náði ekki meirihluta á þinginu. 150 þúsund nýir meðlimir eru taldir hafa skráð sig í flokkinn eftir að niðurstöður voru kunngjörðar.
Verkamannaflokknum hafði ekki verið spáð góðu gengi í kosningunum en niðurstöður kosninganna gera leiðtogahæfileikum Jeremy Corbyn nú hátt undir höfði.
Þá tóku leitarvélar einnig kipp en mikil aukning var á innslætti „Join Labour“ eða „Gerast meðlimur í Verkamannaflokknum“ í Google, sérstaklega þegar útgönguspár voru birtar.
Theresa May stendur nú í viðræðum við Lýðræðislega sambandsflokkinn, DUP, en enn er ekki ljóst hverjar niðurstöður þess samkomulags verða. Viðræðurnar munu halda áfram í vikunni.
Þá hefur Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, heitið því að kollvarpa hverri þeirri ríkisstjórn sem May kann að mynda. „Ég get enn þá orðið forsætisráðherra,“ var haft eftir Corbyn í dag.
Tengdar fréttir

Corbyn: „Það er nokkuð ljóst hverjir unnu þessar kosningar“
Formaður Verkamannaflokksins segir flokkinn reiðubúinn að þjóna Bretum með myndun minnihlutastjórnar og án þess að semja sérstaklega fyrirfram við aðra flokka.

Helstu ráðgjafar Theresu May segja af sér
Nick Timothy og Fiona Hill, tveir nánustu ráðgjafar Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, hafa sagt af sér í kjölfar ósigurs Íhaldsflokksins í nýliðnum kosningum í Bretlandi.

Ríkisstjórn May stendur veikum fótum
Útlit er fyrir minnihlutastjórn Íhaldsflokksins með stuðningi Lýðsræðislega sambandsflokksins á Norður-Írlandi í breska þinginu. Úrslit kosninganna voru sögð niðurlæging fyrir Theresu May forsætisráðherra. Óvissa um samninga Bretlands og Evrópusambandsins.

Flokkarnir hafa enn ekki komist að samkomulagi
Downing Street, skrifstofa forsætisráðuneytisins í Bretlandi, og Lýðræðislegi sambandsflokkurinn (DUP) sitja enn að samningum og hafa ekki enn komist að niðurstöðu um myndun minnihlutastjórnar. Í tilkynningu frá Downing Street í gær sagði að samningar um stjórnarsamstarf Íhaldsflokksins og Lýðræðislega sambandsflokksins væru í höfn. Í kjölfarið bárust tilkynningar frá báðum fylkingum um að svo væri ekki, að samningaviðræður stæðu enn yfir.