
Forsvarsmenn HB Granda tilkynntu í mars að fyrirtækið ætlaði að hætta botnfiskvinnslu á Akranesi og segja upp 86 starfsmönnum. Þeim stóð til boða að sækja um í uppsjávarvinnslu eða fiskimjölsverksmiðju fyrirtækisins á staðnum. Þá stendur til boða að starfa hjá dótturfélögunum Norðanfiski og Vigni G. Jónssyni á Akranesi.
„Mér heyrist á flestum að þeir hafi í hyggju að sækja um þar. Það liggur ekki fyrir hvort þar verði störf að fá. Samkvæmt mínum upplýsingum verða það örfá störf,“ segir Vilhjálmur. „Ég óttast að 1. september verðum við með sextíu til áttatíu manns án atvinnu.“
Starfsfólk sem sagt var upp hefur fram að mánaðamótum til að gera upp hug sinn. Um miðjan júlí á svo að liggja fyrir hve margir fá áframhaldandi starf hjá HB Granda eða dótturfélögum.
Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, vildi ekki staðfesta hve margar umsóknir hefðu borist. Lítið sé hægt að segja um stöðuna fyrr en að liðnum frestinum, þann1. júlí.