Innlent

Vigdís Finnbogadóttir plantaði birkitrjám í Skálholti með barnabörnunum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, segir að það besta sem hún hafi gert í þau 87 ár sem hún hefur lifað sé að láta moka ofan í skurði og endurheimta þannig votlendið því mýrarnar séu lungun heimsins.

Vigdís Finnbogadóttir mætti í Skálholti í vikunni með dóttur sinni og tengdasyni, ásamt fjórum börnum þeirra. Á staðnum voru einnig þrjár systur frá Eystra Geldingaholti í Skeiða og Gnúpverjahreppi og hluti af fjölskyldu þeirra en Vigdís var í sveit í sjö sumur á bænum.

Eftir að hópurinn hafði snætt hádegismat í Skálholtsskóla var haldið á skógræktarsvæði staðarins þar sem Vigdís plantaði þremur birkitrjám með aðstoð barnabarnanna.

Ástríður Magnúsdóttir, dóttir Vigdísar, er stolt af mömmu sinni hversu dugleg hún er að taka þátt í allskonar verkefnum út um allt land. Þá er Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskupinn í Skálholti ekki síður ánægður með Vigdísi og stoltur af hennar verkum í gegnum árin.

Eftir að hafa plantað trjánum var komið að því að skoða skurðina í Skálholti sem er verið að fylla smátt og smátt til að endurheimta votlendið. Vigdís átti hugmyndina að verkefninu í gegnum minningarsjóðinn Auðlind sem var stofnaður til minningar um Guðmund Pál Ólafsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×