Emmanuel Macron Frakklandsforseti vill fækka fulltrúum í báðum deildum franska þingsins um þriðjung. Þetta kom fram í ræðu forsetans við Versalahöll í dag þar sem hann ávarpaði þingmenn beggja deilda franska þingsins.
Macron sagði í ræðu sinni að Frakkland væri nú reiðubúið að gera róttækar breytingar og feta nýja braut. Fækkun þingmanna myndi hafa jákvæð áhrif á starfsemi þingsins. „Fram til þessa höfum við verið á rangri braut, við höfum tekið reglur fram fyrir frumkvæði,“ sagði forsetinn.
Forsetinn sagði að ef tillögur hans yrðu ekki samþykktar á sjálfu þinginu innan eins árs myndi hann boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.
Macron hafði betur gegn Marine Le Pen, leiðtoga frönsku Þjóðfylkingarinnar, í síðari umferð frönsku forsetakosninganna í byrjun mánaðar. La Republique En Marche Party, flokkur Macron, vann svo mikinn sigur í þingkosningunum í síðasta mánuði og náði þar 308 þingsætum af 577 mögulegum.
348 þingmenn eiga sæti í öldungadeild eða efri deild franska þingsins.
Macron greindi einnig frá því að hann ætli sér síðar á árinu að aflétta því neyðarástandi sem komið var á í landinu eftir hryðjuverkaárásirnar í nóvember 2015.
Macron vill fækka þingmönnum um þriðjung

Tengdar fréttir

Talinn hafa haft í hyggju að myrða Macron
Lögregla í Frakklandi hefur handtekið 23 ára karlmann vegna orða sem hann lét falla á spjallsvæði á netinu.