Íslensku stuðningsmennirnir hafa verið duglegir að taka Víkingaklappið í fyrsta leik íslenska kvennalandsliðsins á EM í Hollandi.
Hollenska sjónvarpsfólkið er líka vel með á nótunum en Hollendingarnir eru búnir að finna Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, í miðjum íslenska stuðningsmannahópnum.
Í hvert skipti sem íslensku stuðningsmennirnir byrja að „húha“ í stúkunni þá eru myndavélarnar búnar að finna Guðna Th.
Guðni Th. lætur ekki sitt eftir liggja og hefur tekið vel undir í Víkingaklappinu með löndum sínum. Heiðursstúkan, þar sem finna má nokkra háttsetta Íslendinga, er líka með í fjörinu.
Það hefur verið frábært fyrir íslensku stelpurnar að fá svona flottan stuðning í þessum erfiða leik á móti einu besta fótboltaliði heims.
Frönsku stelpurnar fá hinsvegar lítinn stuðning og það er enginn spurning hvor þjóðin er að vinna á áhorfendapöllunum.
