Körfubolti

Skallagrímur fær til sín unglingalandsliðskonu frá Króknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bríet Lilja Sigurðardóttir
Bríet Lilja Sigurðardóttir Mynd/Fésbókarsíða Skallagríms
Bríet Lilja Sigurðardóttir ætlar að taka slaginn með Skallagrími í Domino´s deild kvenna í körfubolta næsta vetur. Borgnesingar hafa styrkt liðið sitt á síðustu dögum.

Bríet Lilja er 19 ára gömul og kemur frá Sauðárkróki. Hún hefur leikið bæði með meistaraflokki hjá Tindastól (2013-2014 og 2014-2015) og Þór Akureyri (2015-2016). Bríet var með 9,6 stig, 6,6 fráköst og 3,3 stoðsendingar að meðaltali með Þórsliðinu tímabilið 2015-16.

Bríet hefur leikið með yngri landsliðum Íslands (U15, U16 og U18) en síðasta vetur bjó hún á Sauðárkróki og lék með unglingaflokki Tindastóls. Stólarnir lögðu niður kvennaliðið sitt eftir 2014-15 tímabilið og því er þessi efnilega körfuknattleikskona að leita á önnur mið.

„Bríet Lilja ætlar að flytja í Borgarnes í haust og taka körfuna með trompi í vetur,“ segir í fréttatilkynningu frá Skallagrími.

Bríet Lilja er annar leikmaðurinn sem semur við Borgarnesliðið á síðustu dögum en áður hafði félagið gert samning hina bandarísku Carmen Tyson-Thomas. Tyson-Thomas er einn besti leikmaðurinn sem hefur spilað hér á landi.

Skallagrímsliðið vakti mikla athygli sem nýliði í deildinni á síðustu leiktíð en liðið komst í bikarúrslitaleikinn og tapaði síðan í oddaleik í undanúrslitum á móti verðandi Íslandsmeisturum Keflavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×