Þrír björgunarsveitarmenn úr björgunarsveitinni Björgum frá Eyrarbakka lentu í lífsháska í Hvítá í gær þar sem þeir voru við leit að hinum 22 ára gamla Nika Begades sem féll í Gullfoss á miðvikudag.
Bátur björgunarsveitarmannanna varð vélarvana en að því er fram kemur á vef Morgunblaðsins réð aðeins hending því að aðrir björgunarsveitarmenn voru nærri og gátu komið hópnum til aðstoðar.
Bátinn rak undir nýju brúna yfir Hvítá en búið er að strengja net milli stólpa brúarinnar vegna leitarinnar. Báturinn festist svo í netinu og komust björgunarsveitarmennirnir ekki úr bátnum vegna þess hversu straumhörð Hvítá er.
Í frétt Morgunblaðsins segir að eyri í ánni hafi byrgt björugunarsveitarmönnum í landi sýn en þeir ákváðu hins vegar að kanna til vonar og vara hvort það væri í lagi með björgunarsveitarmennina sem voru á bátnum.
Um korter leið frá því að björgunarsveitarmennirnir sem voru í landi sigldu fram á hópinn og þar til allir voru komnir í land. Svæðisstjórn Landsbjargar var tilkynnt um málið.
Uppfært: Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg varð umrætt atvik í gær en ekki í dag eins og áður var greint frá. Þetta hefur nú verið leiðrétt.
Björgunarsveitarmenn í lífsháska við leit í Hvítá

Tengdar fréttir

Dregið úr leit við Gullfoss í dag
Dregið verður úr leit í dag að manni sem féll í Gullfoss á miðvikudag. Þetta segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi. Þó átti eftir að ákveða nákvæmlega með hvaða hætti leit færi fram þegar Fréttablaðið fór í prentun í gærkvöldi.

Maðurinn sem féll í Gullfoss hét Nika Begades
Maðurinn sem féll í Gullfoss þann 19.júlí s.l. hét Nika Begades og 22 ára gamall frá Georgíu.