Í samtali við Vísi segir Bergur að ólíðandi sé hvernig farið hafi verið með málið. Nýútgefnar tölur um uppreist æru frá 1995-2017, þar sem hann telur sjást að Robert hafi fengið óeðlilega meðferð, auk útgöngu meirihluta nefndarinnar í dag hafi reynst þolendum þungbærar fréttir.
Öll mál afgreidd á innan við ári nema mál Roberts Downey
Í dag voru fluttar fréttir af því að meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem fundaði í dag um reglur um uppreist æru, hefði gengið út áður en meðmælabréf í máli Roberts voru lögð fram í trúnaði. Bergur furðar sig á þessu í færslu sinni og vísar þar í tölulegar upplýsingar sem birtar voru í dag um uppreist æru árin 1995-2017.
„Þar sést að öll mál hafa verið afgreidd á innan við ári nema eitt. Mál Roberts Downey. Það var afgreitt á tveimur árum,“ skrifar Bergur á Facebook-síðu sinni í kvöld.
„Málið er frávik frá eðlilegri afgreiðslu. Þess vegna er réttlætanlegt að það mál sé skoðað sérstaklega í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og nefndarmenn ættu ekki að forðast það eins og heitan eldinn og ganga burt af fundi með lokuð augu eins og gerðist í dag.“
Sjá einnig: Birta yfirlit yfir þá sem hlotið hafa uppreist æru
Þá rekur Bergur ferlið um uppreist æru Roberts Downey í færslu sinni og vísar í þær upplýsingar sem hann hefur nú fengið um málið, sérstaklega hinar nýútgefnu tölulegu upplýsingar um uppreist æru frá árunum 1995-2017. Að lokum skrifar hann að um augljóst frávik sé að ræða. Þá krefst hann þess að foreldrum og aðstandendum verði veittar allar upplýsingar um málið.
„Að mati brotaþola Robert(s) Downey og aðstandanda þeirra er um augljóst frávik að ræða sem hvorki dómsmálaráðuneytið né stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafa komið auga á. Við höfum upp á eigin spýtur og með hjálp fjölmiðla þurft að raða saman þeim litlu brotum sem mjatlað er í okkur. Það er því óþolandi að upplýsingum sé haldið frá okkur og krefjumst þess að fá allar upplýsingar um málið fram í dagsljósið, þar á meðal umsagnir og nöfn hinna valinkunnu. Ef stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd telur það brjóta jafnræðisreglu biðjum við um sömu upplýsingar um öll mál af sama toga,“ skrifar Bergur.
Ólíðandi að fá ekki að sjá neinar upplýsingar
Aðspurður segist Bergur ekki viss um það hvort einhver skilaboð til brotaþola séu fólgin í útgöngu meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í dag. Í samtali við Vísi í kvöld segir hann fyrst og fremst alvarlega vöntun vera á upplýsingum til brotaþola og aðstandenda um mál Roberts Downey.
„Ég veit ekki hvort það séu einhver skilaboð í þessu fólgin en allavega höfum við þurft að grufla í þessu og það hefur verið hent í okkur upplýsingum og menn segja etthvað, bæði ráðherrar og nefndarformenn, þeir segja eitthvað sem við fáum síðan engar sannanir fyrir. Við fáum ekki að sjá neinar upplýsingar um þetta mál,“ segir Bergur.
„Þetta er bara gjörsamlega ólíðandi hvernig farið er með þetta, því þetta varðar bæði okkur og almannahag. Það er bara ólíðandi að við fáum engar upplýsingar. Þeim er haldið frá okkur.“
Sjá einnig: Faðir segir Robert Downey fá uppreist æru eins og eftir umsókn um Costco kort
Annað áfall fyrir stúlkurnar
Bergur tekur enn fremur sérstaklega fram í samtali við blaðamann að greinilegt sé að málið er ekki flokkspólitískt. Þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi hafi sett sig í samband við Berg og fjölskyldu hans og sagst styðja þau í málinu.
Þá talar hann fyrir hönd brotaþola Roberts Downey, þar á meðal dóttur sína Nínu, og aðstandenda þeirra þegar hann gerir alvarlegar athugasemdir við meðferð málsins. Hann segir fréttaflutningurinn í dag af fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafa verið enn eitt reiðarslagið fyrir þolendurna.
„Ég er í sambandi við stúlkurnar sem hann braut á og svo erum við tvö pör af foreldrum í kringum Nínu. Þetta er annað áfall fyrir stúlkurnar, þær eru búnar að vera í áfalli í allt sumar stelpurnar, og hafa misst úr vinnu þegar fréttir hafa komið. Þetta er ekki boðlegt.“
Færslu Bergs má sjá í heild sinni hér að neðan.