Bílaumboðið BL hagnaðist um 1,5 milljarða króna í fyrra, að því er fram kemur í nýbirtum ársreikningi félagsins. Jókst hagnaðurinn um tæplega 55 prósent á milli ára en hann nam um 950 milljónum árið 2015.
Rekstrartekjur bílaumboðsins námu 23,4 milljörðum í fyrra, samanborið við 17 milljarða árið 2015. Þá jukust rekstrargjöldin um 5,6 milljarða króna á milli ára og námu 21,6 milljörðum króna í fyrra.
Eigið fé BL var 2.906 milljónir króna í lok síðasta árs og eiginfjárhlutfallið 53,9 prósent. 183 starfsmenn störfuðu að meðaltali hjá félaginu í fyrra borið saman við 159 árið 2015.
Leggur stjórn félagsins til að ekki verði greiddur arður til hluthafa á þessu ári.
Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.
