Að sögn lögregluyfirvalda á svæðinu barst tilkynning um hinn óboðna gest í gær og voru lögregluþjónar sendir á vettvang í kjölfarið. Töluvert regnvatn hafði flætt inn á heimilið sem greiddi leið krókódílsins.
Á mynd, sem lögregluyfirvöld birtu á Facebook-síðu sinni, má sjá krókódílinn gægjast undan borðstofuborði. Að sögn yfirvalda verður krókódíllinn færður í sín náttúrulegu heimkynni von bráðar.
Talsvert hefur borið á tilkynningum um krókódíla í Texas-ríki en samkvæmt óstaðfestum orðrómi sluppu hundruð krókódíla af búgarði í námunda við Houston í flóðunum.
Yfirvöld vara fólk við að stugga við dýrunum enda getur krókódílaárás verið lífshættuleg. Krókódílar eru fótfráir á landi og því erfitt að hlaupa þá uppi. Rétt viðbrögð væru að hafa sig hægt, hörfa rólega og láta vita.
Krókódílar eru ekki einu skepnurnar sem hafa angrað íbúa á svæðinu en stærðarinnar „flekar“ af eldmaurum hafa sést fljóta á vatnselgnum í kjölfar lægðarinnar. Eldmaurar eru skaðræðisdýr sem þekktir eru fyrir árásargirni sína í garð mannfólks. Bit þeirra eru sögð afar sársaukafull og geta jafnvel kallað fram lífshættuleg ofnæmisviðbrögð, í örfáum tilfellum.
Á meðfylgjandi mynd má einnig sjá beltisdýr sem hefur tekið sér far með árabáti.
Hjálparstarf fer nú fram í Texas-ríki en fellibylurinn hefur þegar kostað 47 manns lífið. Eignatjón hleypur á tugum milljarða en Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur biðlað til Bandaríkjaþings um að senda 7,8 milljarða bandaríkjadala í neyðaraðstoð.