Skila þarf inn tveimur vottorðum um góða hegðun frá valinkunnum einstaklingum, t.d. vinnuveitanda, þegar sótt er um uppreist æru til dómsmálaráðuneytisins. Lagaprófessor segir að þeir sem telji að bréf sín hafi verið misnotuð í þessum tilgangi gætu leitað til lögreglu.

Haraldur Þór Teitsson, framkvæmdastjóri hópferðabílafyrirtækisins Teits Jónassonar ehf., sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann fullyrðir að hann hafi ekki skrifað meðmælabréf til handa Hjalta Sigurjóni vegna umsóknar hans um uppreist æru heldur hafi verið um að ræða meðmæli í vinnu þar sem hann væri að staðfesta að Hjalti hefði starfað hjá fyrirtækinu og hann gæti mælt með bílstjóra.
„Það að þessi bréf voru notuð sem meðmæli um uppreist æru Hjalta var án minnar vitundar og samþykkis. Undirrituðum var aldrei tjáð að þessi bréf yrðu notuð í þeim tilgangi enda hefðu þau aldrei verið veitt sem slík,“ sagði Haraldur Þór í yfirlýsingunni og gagnrýndi forkastanleg vinnubrögð ráðuneytisins að koma með þessum hætti „aftan að grandalausu fólki“.
Áður hafði Sveinn Matthíasson, yfirmaður Hjalta hjá Kynnisferðum, sagt að í bréfinu sem hann hafi skrifað undir fyrir Hjalta hafi verið að finna texta sem hann neitar að hafa skrifað undir. Hann hafi aðeins skrifað undir bréf þar sem hann staðfesti hæfni Hjalta í starfi sem bílstjóra.
Þriðji umsagnaraðilinn var svo Benedikt Sveinsson, eigandi Kynnisferða og faðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, sem sagði í sinni yfirlýsingu að hann hefði skrifað undir bréf sem Hjalti hefði fært honum útfyllt.

Ef marka má yfirlýsingar Haralds og Sveins þá virðist þeim ekki hafa verið kunnugt um að bréfin sem þeir skrifuðu undir yrðu notuð í þeim tilgangi að aðstoða Hjalta, dæmdan barnaníðing, við að fá uppreist æru.
Líklegt er þó að ákvörðunin um að veita Hjalta uppreist æru standi, nema bréfritarar taki til sinna ráða.
„Þessi ákvörðun stendur á meðan ekki er leitt í ljós að lögð hafi verið fram hugsanlega fölsuð gögn. Þá þarf að vega og meta hvort beri að endurupptaka málið,“ segir Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.
„Ef þessir menn segjast aldrei hafa skrifað undir það sem það var notað í eða hafi því verið breytt hlýtur að hvíla á þeim að kæra það til lögreglu ef um skjalafals er að ræða. Það er eitt úrræði.“