Upphaflega vitnaði blaðið í Miguel Arias Cañete, loftslags- og orkumálastjóri Evrópusambandsins, sem sagði að fulltrúi bandarískra stjórnvalda hefði kynnt þessa óvæntu stefnubreytingu á lokuðum fundi í dag.
„Bandaríkin hafa gefið það út að þau ætli ekki að semja um Parísarsamkomulagið upp á nýtt en þau ætla að reyna að fara yfir forsendurnar sem þau væru til í að taka þátt í samkomulaginu á,“ sagði Cañete, að sögn Wall Street Journal.
Sarah Huckabee Sanders, blaðafulltrúi Hvíta hússins, bar fréttirnar þó til baka nú í kvöld.
„Það hefur engin breyting orðið á afstöðu Bandaríkjanna til Parísarsamkomulagsins. Eins og forsetinn hefur gert kirfilega ljóst ætla Bandaríkin að draga sig út nema að við getum skrifað aftur undir á skilmálum sem eru hagstæðari landi okkar,“ sagði hún í yfirlýsingu vegna fréttanna.
Politico hefur eftir ónefndum bandarískum embættismönnum að erlendir erindrekar hafi rangtúlkað orð fulltrúa Bandaríkjanna á loftslagsfundinum í Montreal.
Neitunin útilokar ekki endilega áframhaldandi þátttöku
Yfirlýsing Huckabee Sanders virðist þó ekki taka af öll tvímæli um hvort að Bandaríkin gætu tekið áfram þátt í Parísarsamkomulaginu. Í henni kemur aðeins fram að afstaða stjórnarinnar hafi ekki breyst. Sú afstaða hefur meðal annars verið sú að áframhaldandi þátttaka á öðrum forsendum gæti verið möguleg.
Í frétt Wall Street Journal var gengið út frá þeirri forsendu að Bandaríkin gætu haldið sig við samkomulagið en dregið úr markmiðunum sem Barack Obama setti í forsetatíð sinni.

Gerði lítið úr tengslum loftslagsbreytinga við fellibyljina
Trump tilkynnti í júní að hann hygðist draga Bandaríkin út úr samkomulaginu. Hefur sú ákvörðun verið fordæmd af þjóðarleiðtogum, ríkis- og borgarstjórum stórra borga innan Bandaríkjanna og stórum fyrirtækjum.
Hugmyndir Trump virðast um loftslagsbreytingar virðast einnig lítið hafa breyst frá því að hann lýsti þeim sem kínversku „gabbi“.
Þegar hann var spurður að því hvort að að tveir stórir fellibyljir, Harvey og Irma, sem hafa gengið á land með skömmu millibili hafi breytt skoðunum hans á loftslagsbreytingum sagði forsetinn að stærri stormar hafi gengið yfir Bandaríkin.
Þrátt fyrir það fór Trump mikinn á Twitter á meðan fellibyljirnir tveir voru í gangi og lýsti því hversu stórir þeir væru á sögulegan mælikvarða, jafnvel þeir stærstu sem sést hefðu, eins og fram kemur í frétt Washington Post.
Fréttin og fyrirsögn hennar var uppfærð eftir að greint var frá yfirlýsingu Hvíta hússins vegna fréttar WSJ.