Baldur sagðist ekki eiga von á því í öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokknum, en sagði Bjarna þó hingað til hafa staðið margt af sér.

Rætt var við Baldur vegna þeirrar stöðu sem er upp komin í stjórnmálum á Íslandi eftir að Björt framtíð ákvað að slíta stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn í gærkvöldi.
Flestir flokkanna á þingi hafa kallað eftir kosningum, en ekki er vitað hvað Sjálfstæðisflokkurinn vill á meðan Píratar vilja hinkra og sjá hvort hægt sé að mynda ríkisstjórn.

Baldur sagði ljóst að boltinn sé hjá Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra. Spurningin sé hvað hann velji, að reyna að mynda nýja ríkisstjórn eða boða til kosninga.
Baldur sagði nokkuð erfitt fyrir Bjarna að mynda ríkisstjórn, sérstaklega í ljósi þess að þingflokkur Viðreisnar hefur talað um að best sé að kjósa á ný sem fyrst.
„Benedikt (Jóhannesson formaður Viðreisnar) hefur ekki verið algjörlega afdráttarlaus, en það er talað um að best sé að kjósa. Það er kannski einhver glufa þarna, til dæmi að Framsóknarflokkurinn komi inn í þessa stjórn, eða styðji minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar. Líklega yrði það líklegasta val Bjarna en við þurfum að athuga að það er langt á milli Viðreisnar og Framsóknarflokksins. Það þarf að brúa þar heilmikið bil,“ sagði Baldur en við stjórnarmyndunarviðræðurnar í fyrra útilokað Viðreisn að vinna með Framsóknarflokknum.
Sjá einnig: Framsókn ekki tilbúin að stíga inn í stað Bjartrar framtíðar

Pírtar óttast mögulega fylgistap
Spurður út í afstöðu Pírata að vilja hinkra og sjá til hvort hægt sé að mynda ríkisstjórn, sagði Baldur að þetta hefði verið afstaða Pírata við stjórnarmyndunarviðræðurnar, að þeir gætu myndað stjórn en að það vantaði upp á samningsvilja hjá einstaka flokkum. Píratar unnu stóran kosningasigur í síðustu kosningum og sagði Baldur að þeir gætu óttast að missa fylgi. „Og kannski ekki sjálfgefið að þeir haldi sterkri stöðu eftir kosningar.“
Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, sagði í hádegisfréttum Stöðvar 2 að ekki væri mikið annað í stöðunni en að boða til kosninga, og því annað hljóð komið í Pírata en í morgun þegar þeir vildu freista þess að mynda ríkisstjórn.
Baldur sagði augljóst að það verður erfitt að mynda ríkisstjórn og líklega yrði það erfitt jafnvel eftir aðrar kosningar. Það gætu hins vegar komið skýrari línur til hægri eða vinstri og svo sé ekkert sjálfgefið að Sjálfstæðisflokkurinn komi illa út úr kosningum.
Stjórn Bjartrar framtíðar samþykkti með afgerandi meirihluta að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu í gærkvöldi vegna trúnaðarbrests. Í framhaldinu lýsti Viðreisn því yfir að loknum fundi sínum að réttast væri að boða til kosninga í ljósi stöðunnar sem væri komin upp.
Trúnaðarbresturinn sem Björt framtíð vísar til snýr að því að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra greindi Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra frá því í júlí að faðir hans, Benedikt Sveinsson, væri á meðal umsagnaraðila eins þeirra 32 sem hefðu fengið uppreist æru frá árinu 1995. Mánuði fyrr hafði dómsmálaráðherra neitað fjölmiðlum um aðgang að gögnum í einu slíku máli.