„Við ákváðum bara að vera heima. Ride it out eins og þeir segja hér í Ameríku, enda er ekkert hægt að fara,“ sagði Pétur í samtali við Bylgjuna.
Pétur segir að fólk á svæðinu hafi áhyggjur af Irmu en að vindhraðinn sé ekki orðinn mikill á því svæði sem hann er búsettur á. „Fellibylurinn er að koma inn á Key West af fullu afli og fer þaðan yfir til Naples. Þetta fer að ná alvöru styrk um átta leitið í kvöld á okkar tíma.“
„Ég myndi ekki vilja vera á ströndinni á Key West núna. Key West fer í kaf á eftir,“ segir Pétur.

Pétur segist dást að yfirvöldum í Flórídafylki.
„Þeir hafa staðið sig vel í fólksflutningum og í að tryggja það að aðal umferðarleiðir séu hreinar og að það sé nóg af eldsneyti og vatni. Hérna er búið að skikka 6,5 milljónir manns til að færa sig til á öruggara svæði,“ segir Pétur og bætir því við að í raun séu bara þrír vegir sem aðallega eru notaðir.
Pétur og kona hans finna ekki fyrir hræðslu, en þau eru kvíðin. „Við teljum að húsið þoli þetta. Við erum með herbergi í húsinu sem er gluggalaust og getum hlaupið þangað inn ef það kemur viðvörun en maður hangir ekki inni í fataherbergi í 36 klukkutíma.“