Stuðningsmenn Beskitas gerðu lífið óbærilegt fyrir einn besta leikmann Leipzig liðsins í leiknum og það er ekki á hverjum degi sem háværir stuðningsmenn framkalla skiptingu í alþjóðlegum fótbolta.
Þýski landsliðsmaðurinn Timo Werner þurfti hinsvegar að biðja um skiptingu eftir aðeins 32 mínútur í leik Beskitas og Leipzig í Meistaradeildinni í gær.
Werner hafði áður reynt að spila með eyrnatappa og sást setja hendurnar fyrir eyrun áður en hann varð að yfirgefa leikinn.
Beskitas vann leikinn 2-0 og hefur nú ekki tapað í tíu heimaleikjum í röð í Evrópukeppninni.
timo werner vs tiner pic.twitter.com/d8V4WazahP
— bilalJK (@koyicinden) September 26, 2017
Nú er bara spurning um hvort að íslensku strákarnir þurfi að taka eyrnatappa með til Tyrklands. Það er í það minnsta ljóst að þetta er gríðarlega mikilvægur leikur fyrir bæði lið og íslenska liðið má ekki við að missa leikmenn útaf vellinum vegna hávaða.
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, þarf jafnvel að leita einhverra leiða til að undirbúa leikmenn liðsins fyrir að spila í svona miklum hávaða.
Íslenska liðið tapaði 1-0 á móti Tyrklandi þegar liðið var á sömu slóðum í undankeppni EM 2016. Þá hafði íslenska liðið reyndar þegar tryggt sig inn á EM en Tyrkir komust þangað með sigrinum á Íslandi.
Tyrkneska liðið byrjaði undankeppnina illa en liðinu hefur tekist að snúa við blaðinu með því að vinna fjóra af síðustu fimm leikjum sínum.
Tyrkir komust upp í þriðja sæti riðilsins með sigrinum á Króötum og komast upp fyrir Ísland með sigri.
Króatía og Ísland eru efst í riðlinum með tveimur stigum meira en Tyrkland og Úkraína en Króatar eru með fimm marka forskot á íslenska liðið í markatölu.