Innlent

„Lægstu laun á Íslandi eru skammarlega lág“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Vísir/Stefán
Stjórn VR krefst þess í komandi kjaraviðræðum að persónuafsláttur einstaklinga verði hækkaður í takt við launaþróun frá árinu 1990. Lægstu laun hér á landi séu skammarlega lág og duga ekki til framfærslu hjá fjölda fólks. Þetta sé eitt stærsta vandamálið í íslensku samfélagi í dag að því er fram kemur í grein Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, á vefsíðu félagsins.

„Lægstu laun á Íslandi eru skammarlega lág og duga ekki til framfærslu hjá fjölda fólks. Þetta er eitt stærsta vandamálið í íslensku samfélagi í dag. Og þetta er ástæða þess að stjórn VR krefst þess í komandi kjaraviðræðum að persónuafsláttur verði hækkaður í takt við launaþróun frá árinu 1990.

Skattbyrði lægstu launa hefur hækkað meira en annarra tekjuhópa á undanförnum árum. Það má að stærstum hluta skýra með því að persónuafsláttur hefur ekki haldið í við þróun launa. Félagsmenn VR á lægstu laununum greiddu ekki skatt af launum sínum fyrir árið 1998 en frá þeim tíma hefur skattbyrði alls launafólks aukist - þeirra lægstlaunuðu þó mest.

Skattbyrði lágmarkslauna hjá VR er nú um 16% sem er svipað og skattbyrði meðallauna VR félaga var árið 1990. Á myndinni má sjá þróun lágmarkslauna í samanburði við skattleysismörk, en dregið hefur sundur með þeim nánast ár frá ári frá aldamótum,“ segir í greininni.  

Þá er það rakið hvað persónuafslátturinn ætti að vera í dag ef hann hefði haldið í við verðbólgu og ef hann hefði verið bundinn við launavísitölu frá árinu 1990.

„Persónuafsláttur er jöfnunartæki, hann er krónutala sem þýðir að sá sem er með lægstu launin heldur eftir hlutfallslega meiru af sínum tekjum að teknu tilliti til skatta en sá sem hefur hærri laun. Jöfnunaráhrif hans minnka augljóslega ef hann heldur ekki í við þróun launa.

Persónuafsláttur er í dag tæplega 53 þúsund krónur á mánuði. Hann væri 67 þúsund krónur hefði hann haldið í við verðbólgu og 112 þúsund krónur ef hann hefði verið bundinn launavísitölu frá árinu 1990. Lægstu laun eru 280 þúsund krónur á mánuði í dag og að af þeim eru greiddir skattar, 46 þúsund krónur.“

Grein Ragnars má lesa í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

Kjarasamningum VR líklega sagt upp

Yfirgnæfandi líkur eru á því að kjarasamningum VR verði sagt upp í febrúar að sögn formanns félagsins. Hann vísar til forsendubrests og segir að úrskurðir kjararáðs verði notaðir sem viðmið í kjarabaráttunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×