Alþjóðalögreglan Interpol lýsir á heimasíðu sinni eftir Agnari Hólm Jóhannessyni, 51 árs gömlum karlmanni, sem ákærður er hér á landi fyrir nauðgun, þjófnað og líkamsárás. Agnar er eftirlýstur að beiðni embættis héraðssaksóknara sem gefið hefur út handtökuskipun á hendur honum.
Fréttastofa RÚV greindi frá því í kvöld að embætti héraðssaksóknara hafi birt manninum ákæru og að það hafi staðið til að þingfesta hana í maí síðastliðnum. Sætir Agnar ákæru fyrir nauðgun, þjófnað og líkamsárás en hann á að hafa framið meint brot fyrir tveimur árum síðan. Lét maðurinn ekki sjá sig við þingfestingu málsins og fékk embætti héraðssaksóknara í kjölfarið þær upplýsingar að maðurinn væri farinn úr landi.
Þá kemur einnig fram að maðurinn hafi áður komist í kast við lög en hann var fyrir þremur árum dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir umferðar-og fíkniefnalagabrot. Í dómnum kom fram að hann hefði á árunum 1987 til 2013 hlotið átta dóma fyrir hin ýmsu brot, meðal annars skjalafals og auðgunarbrot.
