Skoðun

Nýjar forsendur hjá peningastefnunefnd Seðlabankans?

Stefán Helgi Jónsson og Skúli Hrafn Harðarson skrifar
Seðlabankinn lækkaði stýrivexti sína um 0,25% á fundi sínum þann 4. október síðastliðinn. Óhætt er að segja að ákvörðun bankans hafi komið markaðsaðilum verulega óvart. Allir greiningaraðilar á markaði spáðu óbreyttum stýrivöxtum fyrir fundinn þar sem rök þeirra voru meðal annars að raunvextir hefðu lækkað á milli funda sem og að ríkisstjórnarslitin hefðu aukið óvissu um aðhald ríkisfjármála á næstunni.

Að okkar mati eru þónokkur tíðindi í fundargerð Seðlabankans sem birt var þann 18. október síðastliðinn og ber þar helst að nefna nýtt mat peningastefnunefndar á þeim raunvöxtum sem þarf til að halda verðbólgu við markmið. Fram kemur í fundargerðinni að hagvöxtur verði áfram töluvert mikill en aðlögun að sjálfbærum hagvexti virðist að mati nefndarinnar vera hraðari en áður var talið. Þetta stöðumat nefndarinnar er áhugvert í ljósi síðustu vaxtalækkunar. Hér er með öðrum orðum verið að segja að spennan verði áfram mikil en muni lækka eitthvað á næstu misserum í átt að jafnvægi. Hagkerfið er því að keyra umfram framleiðslugetu sem þýðir að öðru óbreyttu að raunvextir ættu að vera hærri samanborið við hagkerfi í jafnvægi.

Mikið hefur verið rætt og ritað um jafnvægisraunvexti á Íslandi. Seðlabankinn er með 3% jafnvægisraunvexti í sinni efnahagspá en ljóst má vera á aðgerðum peningastefnunefndar að hún er ekki á sama máli. Fyrir vaxtalækkunina í október voru raunvextir bankans miðað við meðaltal mismunandi mælikvarða á verðbólgu og verðbólguvæntingar 2,1% og höfðu lækkað frá því í ágúst þegar þeir voru 2,3%. Í júní voru samsvarandi vextir 2,7% og hafa því lækkað um tæplega 1% á nokkrum mánuðum.

En hvað hefur breyst á þessum nokkrum mánuðum? Tölur Hagstofunnar um hagvöxt á fyrri hluta ársins voru birtar í september. Niðurstaðan var 4,3% vöxtur en Seðlabankinn hafði spáð í ágúst að hagvöxtur yrði 5,6% á fyrri hluta ársins. Munar þar mestu um framlag utanríkisviðskipta en þjóðarútgjöld voru í góðu samræmi við spána eða 5,2% í stað 5,4%. Spennan í hagkerfinu er því enn mikil og vel umfram framleiðslugetu hagkerfisins til lengri tíma litið. Peningastefnunefnd er þó á sama tíma að lækka raunvexti niður fyrir 2% og í því felast mikil tíðindi.

Álykta mætti út frá síðustu vaxtalækkun að jafnvægisraunvextir séu nær 1% að teknu tilliti til framleiðsluspennunnar í hagkerfinu. Það verður því mjög fróðlegt að sjá næstu spá Seðlabankans varðandi hagvöxt og mat hans á framleiðsluspennu sem birt verður samfara næstu vaxtaákvörðun þann 15. nóvember næstkomandi.

Höfundar eru sjóðstjórar hjá Júpiter rekstrarfélagi.

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×