Sayfullo Saipov, sem grunaður er um að hafa orðið átta manns að bana í New York í síðasta mánuði er ekið var á hjólreiðamenn og gangandi vegfarendur, hefur lýst sig saklausan af ákæru um morð og aðrar sakargiftir.
Saipov, 29 ára gamall Úsbeki, var handtekinn á vettvangi árásarinnar en hann er sakaður um að hafa ekið bíl eftir fjölförnum hjólreiðastíg. Fjölmargir urðu fyrir bílnum og létust sem fyrr segir átta manns í árasinni, auk þess sem að fjölmargir slösuðust.
Lögregla handtók Saipov eftir að lögreglumenn skutu hann á vettvangi. Hefur hann setið í varðhaldi síðan, lengst af á sjúkrahúsi.
Fyrr í mánuðinum var hann ákærður fyrir alls átta morð, 12 morðtilraunir auk annarra ákæruliða, þar á meðal fyrir að hafa stutt hryðjuverkasamtökin ISIS.
Refsingin fyrir alvarlegustu ákæruliðina er dauðarefsins en óvíst er hvort saksóknarar í New York muni fara fram á slíka refsingu.
Í frétt Guardian segir að Saipov hafi í yfirheyrslum játað að hafa skipulagt árásina á síðasta ári og að innblásturinn hafi hann sótt til ISIS. Þá segir einnig að honum hafi liðið vel með hvernig árásin heppnaðist og að hann hafi fram á að vera með fána ISIS inn á sjúkrastofunni þar sem hann jafnaði sig af sárum sínum.
Árásin var sú mannskæðasta í New York frá hryðjuverkaárásinni 11. september 2001. Fimm af þeim sem létust voru frá Argentínu til þess að fagna 30 ára útskriftarafmæli.
