Lítil flóðbylgja skall á eyjaklasana Vanúatú og í Nýju-Kaledóníu í Kyrrahafi í nótt eftir að öflugur jarðskjálfti, sem mældist 7,3 stig, reið yfir á hafsvæðinu austur af Loyalty-eyjum í Suður-Kyrrahafi.
Flóðbylgjan var milli 30 og 100 sentimetrar að hæð að því er fram kemur í frétt Guardian.
Skjálftinn var annar í röðinni á innan við sólarhring á svæðinu og þriðji stóri skjálftinn sem þarna ríður yfir í þessum mánuði.
Flóðbylgjan olli ekki tjóni og engar skemmdir urðu á nærliggjandi eyjum svo vitað sé.
Flóðbylgja skall á Vanúatú og Nýju-Kaledóníu
Atli Ísleifsson skrifar
