Erlent

Ræstu hreyfla Voyager 1 eftir 37 ára hlé

Kjartan Kjartansson skrifar
Fjörutíu ára afmæli Voyager-leiðangranna tveggja var fagnað í ágúst og september. Geimförin tvö eru þeir manngerðu hlutir sem ferðast hafa mesta vegalengd.
Fjörutíu ára afmæli Voyager-leiðangranna tveggja var fagnað í ágúst og september. Geimförin tvö eru þeir manngerðu hlutir sem ferðast hafa mesta vegalengd. JPL
Stjórnendur Voyager 1-geimfarins segja að þeir geti nú framlengt áratugalangan leiðangur þess um tvö til þrjú ár eftir að þeim tókst að ræsa hreyfla geimfarsins í vikunni. Hreyflarnir höfðu þá ekki verið notaðir í 37 ár.

Voyager 1 er nú í rúmlega tuttugu milljarða kílómetra fjarlægð frá jörðinni en geimfarinu var skotið á loft árið 1977. Það heimsótti reikistjörnurnar Júpíter og Satúrnus en er nú komið út úr sólkerfinu okkar eftir fjörutíu ára ferðalag.

Stjórnendur farsins hjá Jet Propulsion Lab (JPL) NASA höfðu orðið varir við að hæðarstjórnunarhreyflum sem notaðir hafa verið til að snúa geimfarinu hafi verið að hraka undanfarið. Því reyndu þeir að ræsa varahreyfla sem höfðu ekki verið notaðir frá árinu 1980 þegar Voyager 1 flaug fram hjá Satúrnusi.

Þeim til mikillar gleði virkuðu varahreyflarnir fullkomlega og jafnvel og þeir sem höfðu verið notaðir fram að þessu, að því er segir í frétt Phys.org. Varahreyflarnir verða því látnir taka við að fullu í janúar. Líklegt er að verkfræðingar muni nota sömu aðferð á systurfarið Voyager 2 þegar og ef þörf krefur.

„Stemmingin einkenndist af létti, gleði og vantrú þegar fólk sá hvernig þessir vel hvíldu hreyflar tóku við keflinu eins og ekkert hefði í skorist,“ segir Todd Barber, verkfræðingur hjá JPL.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×