Innlent

Brak úr öryggisgirðingu kastaðist yfir leigubíl

Birgir Olgeirsson skrifar
Ökumaður bíls, sem grunaður er um ölvun við akstur, ók á girðinguna eftir að hafa teygti sig í veski sem hann missti á gólfið.
Ökumaður bíls, sem grunaður er um ölvun við akstur, ók á girðinguna eftir að hafa teygti sig í veski sem hann missti á gólfið. Vísir/Ernir
Litlu mátti mun að illa færi þegar brak úr öryggisgirðingu sem aðskilur akbrautir á Miklubraut kastaðist í leigubíl aðfaranótt síðastliðins sunnudag.

Atvikið þegar ökumaður á leið vestur á Miklubraut, milli Stakkahlíðar og Lönguhlíðar, ók á öryggisgirðinguna. Leigubíll sem var á leið austur á Miklubraut með farþega fékk brakið úr girðingunni yfir sig en samkvæmt heimildum Vísis mátti litlu muna að illa færi.

Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að engin slys hafi orðið á fólki.

Teygði sig eftir veski sem hann missti í gólfið

Ökumaður bílsins sem ók á öryggisgirðinguna er grunaður um ölvun við akstur. Ökumaðurinn gaf lögreglu þá útskýringu að hann hefði misst sjónar af veginum þegar hann teygði sig eftir veski sem hann hafði misst í gólfið.

Starfsmenn Vegagerðarinnar vinna nú að því að taka þessar öryggisgirðingar niður. Barst tilkynning í dag frá Vegagerðinni þess efnis að unnið yrði að því að taka þessar girðingar sem aðskilja akbrautar á Miklubraut frá svæðinu við Snorrabraut til austurs í átt að Lönguhlíð.

Vegna þess verður hraði um vinnusvæðið lækkaður niður í fimmtíu kílómetra á klukkustund og eru vegfarendur beðnir um að virða merkingar.

Frá vettvangi banaslyssins á Miklubraut í nóvember síðastliðnum.Vísir
Girðingarnar þykja hættulegar

Girðingar af þessari tegund þykja hættulegar, sem sannaðist nýverið þegar bíl var ekið utan í eina slíka á Miklubraut til móts við Skeifuna með þeim afleiðingum að ökumaðurinn kastaðist út og hafnaði á öryggisgirðingu, þar sem hann beið bana.

Vegagerðin ákvað að fjarlægja girðingarnar eftir umrætt banaslys. Girðingarnar voru settar upp til að varna því að gangandi vegfarendur reyni að komast yfir hættulegur og umferðarmiklar götur. Vegagerðin taldi að vegrið beggja vegna girðinganna kæmi í veg fyrir að hætta stafaði af þeim fyrir akandi vegfarendur en annað kom í ljós.

Er unnið að því að finna viðeigandi lausn sem mun varna því að vegfarendur reyni að komast yfir hættulegar og umferðarmiklar götur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×