Geiturnar tvær voru til sýnis við Mathöllina á miðvikudaginn á svokölluðum „Geitardegi“ sem var liður í sýningu útskriftarnema í meistaranámi í hönnun við Listaháskóla Íslands. Þá voru geitaréttir á boðstólum á þremur veitingastöðum í höllinni.

Helga Marín birti myndina á Facebook-síðu vegan fólks á Íslandi. Óhætt er að segja að í athugasemdum þar hafi heitar tilfinningar blossað upp og meðal annars talað um „algera aftengingu“, „dýravaldníðslu“ og „ömurlegan viðbjóð“.
Á heimasíðu Matvælastofnunar segir að hverjum þeim sem verði var við illa meðferð á dýrum beri að tilkynna slíkt til MAST eða lögreglu.
Á Facebook-síðunni ber þó ekki öllum saman um að illa hafi farið um skepnurnar á Hlemmi: „Þær voru þarna í tvo tíma, ég sá þær nokkrum sinnum og þær voru bara í góðu lagi elsku fólk,“ segir í einni athugasemdinni. Samkvæmt reglugerð um velferð sauðfjár og geitfjár ber að tilkynna fyrirhugaða notkun á dýrunum á viðburðum sem þessum til MAST með tíu daga fyrirvara. Óheimilt er að nota dýrin í umhverfi sem er þeim ekki eðlilegt fyrr en að lokinni úttekt MAST.
Konráð Konráðsson, héraðsdýralæknir suðvesturumdæmis, kannast ekki við að slíkt erindi hafi borist vegna „Geitardagsins“ og algengt að fólk sé ekki meðvitað um lög og reglugerðir um meðferð dýra og geri því ýmislegt í trássi við allt slíkt. Helga Marín telur einnig að vanþekking ráði oft för. „Fyrir okkur er þetta mikið tilfinningamál og hrikalegt að dýr séu notuð sem sýningargripir. Og það er svo sem skiljanlegt þar sem það er ekki mikið talað um þetta.“