Óveðrið sem nú gengur yfir höfuðborgarsvæðið náði hámarki upp úr klukkan 8 í morgun að sögn Árna Sigurðssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Nokkrar lægðir koma hins vegar á færibandi núna í vikunni og á strax á fimmtudag er von á annarri lægð sem verður jafnvel nokkuð hressilegri en sú sem er að valda usla nú.
Innanlandsflugi var aflýst í morgun vegna veðursins og þá hafa miklar tafir orðið á millilandaflugi þar sem afar slæmt veður hefur verið á báðum flugvöllunum.
„Appelsínugula viðvörunin á höfuðborgarsvæðinu gildir til klukkan 10 svo þetta gengur tiltölulega hratt niður. Gul viðvörun gildir síðan til klukkan 12,“ segir Árni en hún er í gildi á höfuðborgarsvæðinu, meira og minna um allt Suðurland, Faxaflóa og Breiðafjörð.
Aðspurður hvar versta veðrið hefur verið segir Árni að mjög hvasst sé bæði á Reykjanesbrautinni og undir Hafnarfjalli. Í nótt hafi til að mynda hviða farið upp í 45 metra á sekúndu undir Hafnarfjalli og á Reykjanesbraut hafa hviðurnar farið upp í tæplega 40 metra á sekúndu.
Þá hefur einnig verið afar slæmt veður á Keflavíkurflugvelli þar sem hviðurnar hafa farið upp í 36 metra á sekúndu sem og á Reykjavíkurflugvelli. Undir Eyjafjöllum hefur svo einnig verið mjög hvasst.
Næsta lægð kemur svo á fimmtudagskvöldið.
„Það eru nokkrar lægðir á færibandi núna. Næsta lægð kemur á fimmtudagskvöldið og verður á föstudeginum. Hún verður með svipuðu sniði sýnist mér og ef eitthvað er hún jafnvel nokkuð hressilegri. Síðan er önnur á sunnudaginn. Það sem skýrir stöðuna er kalt loft yfir Kanada sem fóðrar lægðirnar. Kalda loftið streymir fyrir sunnan Grænland og út á hafið og fóðrar þannig þessar lægðir,“ segir Árni.
Veðurhorfur á landinu í dag og næstu daga:
Suðaustan 15-25 m/s og rigning, hvassast við fjöll SV-til, en hægara NA-lands. Talsverð eða mikil rigning SA-lands eftir hádegi, en lengst af úrkomulítið nyrðra. Suðaustan 8-13 og skúrir eða slydduél V-til undir kvöld, en áfram hvassviðri og rigning eystra. Hiti víða 2 til 7 stig.
Lægir smám sman í nótt og kólnar. Hæg suðlæg átt og dálitlar skúrir eða él á morgun, en sums staðar rigning eða slydda eystra fram á kvöld. Hiti víða 0 til 5 stig að deginum.
Á miðvikudag:
Hæg suðlæg eða breytileg átt og rigning eða slydda með köflum N- og A-lands, en annars skýjað með köflum og stöku skúrir eða él. Hiti kringum frostmark.
Á fimmtudag:
Vaxandi suðaustanátt, 15-23 m/s undir kvöld með talsverðri rigningu víða á landinu, en lengst af þurrt á N-landi. Hlýnar í veðri.
Á föstudag:
Suðaustanhvassviðri eða -stormur og talsverð eða mikil ringing á S-verðu landinu, en úrkomuminna fyrir norðan. Hiti 2 til 7 stig.
Á laugardag:
Útlit fyrir hvassa sunnan- og suðvestátt með skúra- eða éljahryðjum, en úrhellisrigningu um kvöldið. Úrkomuminna NA-til á landinu. Hiti 0 til 5 stig.
Á sunnudag:
Líklega áfram sunnanhvassviðri með rigningu eða slyddu A-til, en skúrum eða éljum fyrir vestan og kólnandi veður.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Lægðirnar koma á færibandi í vikunni

Tengdar fréttir

Veðrið seinkar millilandaflugi
Töluverð seinkun verður á millilandaflugi frá Keflavíkurflugvelli nú í morgunsárið vegna veðursins sem gengur yfir suðvesturhluta landsins.

Appelsínugul viðvörun á höfuðborgarsvæðinu í fyrramálið
Fólk er beðið um að fylgjast vel með veðurspám og senda ung börn ekki ein í skólann.