
„Við vísuðum okkar deilu þangað í október þegar ljóst var að hvorki gekk né rak að ræða við samninganefnd ríkisins,“ segir Maríanna en tekur þó fram að enginn árangur hafi náðst. „Þetta er mjög alvarlegt því að þeir virðast ekki vera reiðubúnir til að gera neitt til að leiðrétta laun háskólamanna sem vinna hjá ríkinu,“ bætir hún við. Hún tekur fram að í samkomulagi um að samræma lífeyrisréttindi á milli markaða hafi verið kveðið á um að líka ætti að jafna laun á milli markaða.
Maríanna segir aðalkröfu félagsins vera þá að lægstu laun félagsmanna verði hækkuð upp í 400 þúsund krónur frá og með 1. september síðastliðnum. „Þetta eru 84 stöðugildi sem eru launasett undir 400 þúsundum,“ segir Maríanna. Vinnufundur er áformaður í deilunni í næstu viku og svo verður fundað aftur 17. janúar.
Stóra spurningin fram undan er svo hvort Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið telji að forsendur þeirra kjarasamninga sem undirritaðir voru árið 2015 séu enn fyrir hendi eða ekki. Þær forsendur voru að ríkisstjórnin myndi efna fyrirheit, meðal annars um uppbyggingu félagslegs húsnæðis, að launastefna og launahækkanir í samningi SA og ASÍ yrðu stefnumarkandi á vinnumarkaðnum og að kaupmáttur myndi aukast.
Meti forsendunefnd SA og ASÍ það þannig að forsendur kjarasamninga aðildarfélaganna séu brostnar verða kjarasamningar teknir upp að nýju. Ef forsendurnar halda munu samningarnir halda gildi sínu fram í desember. Í lok ársins gerir Ríkissáttasemjari svo ráð fyrir að 79 samningar verði lausir.
Eftirfarandi mál eru hjá Ríkissáttasemjara
- Félag íslenskra náttúrufræðinga og samninganefnd ríkisins
- Kennarasamband Íslands og samninganefnd ríkisins vegna framhaldsskólakennara
- Félag íslenskra atvinnuflugmanna og SA vegna flugmanna hjá Icelandair
- Flugvirkjafélag Íslands og Samtök atvinnulífsins vegna flugvirkja hjá Atlanta
- Flugfreyjufélag Íslands og Samtök atvinnulífsins vegna flugfreyja hjá Primera air
- Félag skipstjórnarmanna og VM og Samtök atvinnulífsins vegna starfsmanna á hvalaskoðunarskipum