Innlent

Fleiri börn leita til transteymis

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Stuðnings- og baráttusamtök fyrir trans fólk á Íslandi voru stofnuð fyrir ellefu árum. Félagið á aðild að Samtökunum '78 og tekur jafnan virkan þátt í hinni árlegu Gleðigöngu ásamt mörgum fleiri.
Stuðnings- og baráttusamtök fyrir trans fólk á Íslandi voru stofnuð fyrir ellefu árum. Félagið á aðild að Samtökunum '78 og tekur jafnan virkan þátt í hinni árlegu Gleðigöngu ásamt mörgum fleiri. vísir/valli
Sextán beiðnir bárust barna- og unglingadeild Landspítalans í fyrra vegna kynáttunarvanda unglinga. Þar er starfandi transteymi sem vinnur með börnum og unglingum að átján ára aldri sem ekki eru sátt við það kyn sem þau fengu úthlutað við fæðingu.

Eftirspurnin eftir þjónustu teymisins hefur vaxið undanfarin ár, en í fyrra bárust einnig 16 beiðnir, tíu árið 2015, þrjár beiðnir árið 2014, fjórar árið 2013 og sex 2012.

„Þetta er í sjálfu sér frekar nýleg þjónusta hér. Svo þurfum við að vinna í því að efla þetta teymi og þurfum kannski til þess meira fjármagn,“ segir Guðrún Bryndís Guðmundsdóttir, barnageðlæknir á BUGL. Hún segir teyminu yfirleitt berast beiðnir vegna barna sem komin eru á unglingsár en líka vegna einstaka yngri barna.

Guðrún Bryndís Guðmundsdóttir, yfirlæknir á BUGL (t.h.).vísir/stefán
Þegar leitað er eftir þjónustu frá teyminu fer af stað ákveðið greiningarferli sem hefst strax í fyrsta viðtali við barnið og foreldra. Þar er útskýrt hvað felst í greiningarferlinu. Á eftir fylgja svo fleiri viðtöl við barnið og viðtöl við foreldra.

Óttar Guðmundsson geðlæknir segir fullorðnum einstaklingum sem leita til transteymis á geðsviði líka hafa fjölgað. Þegar byrjað var að veita meðferð fyrir um 20 árum var gert ráð fyrir um tveimur einstaklingum á ári. Nú eru þeir að jafnaði tveir til þrír í mánuði. Hann segir enga skýringu vera á þessari fjölgun. „Þetta er alþjóðleg þróun og sést í öllum okkar nágrannalöndum. „Þessir einstaklingar koma fyrr til greiningar og það er það sem þau sjá á BUGL. Við sjáum nákvæmlega það sama hér í fullorðinsteyminu. Við sjáum fjölgun þessara einstaklinga og þeir verða yngri og yngri sem leita til okkar.“

Óttar segir ekki heldur vera neinar nýjar kenningar um það hvað veldur kynáttunarvandanum. „Það sem skiptir mjög miklu máli er að upplýsingaflæði nútímans sé virkt. Það sem helst hefur breyst er að það er miklu meira upplýsingaflæði fyrir hendi,“ segir hann.

Kynjahlutföll hafa gerbreyst á þeim 20 árum sem liðin eru frá því að byrjað var að veita meðferð hér. „Þegar þetta byrjaði þá voru kynjahlutföllin allt önnur. Ein bíólógísk kona á móti fimm karlmönnum. En núna eru kynjahlutföllin svo til þau sömu. Það er kannski 1,5 bíólógískur karl á móti einni konu. Þetta er gjörbreytt,“ segir Óttar. Konum í kynáttunarvanda hefur því fjölgað mikið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×