Innlent

Lögreglan þurfti að rjúka á vettvang vegna tannkremsdeilu samleigjenda

Birgir Olgeirsson skrifar
Maðurinn snöggreiddist þegar samleigjandinn vildi ekki lána honum tannkrem.
Maðurinn snöggreiddist þegar samleigjandinn vildi ekki lána honum tannkrem. Vísir/Eyþór
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var á dögunum kölluð út vegna tannkremsdeilu samleigjenda. Lögreglan greinir skilmerkilega frá málinu á Facebook-síðu sinni en þar segir að stundum sé erfitt að vita með fullkominni vissu um alvarleika mála fyrr en á vettvang er komið þegar kemur að fjölbreyttum verkefnum lögreglu.

Í þessu tiltekna máli barst lögreglunni símtal úr heimahúsi þar sem tilkynnt var um ofbeldisverknað. Tveir lögreglumenn fóru á staðinn en á heimilinu hafði slegið í brýnu milli tveggja samleigjenda og annar slegið hinn tvívegis í öxlina.

„Átökin voru yfirstaðin þegar lögreglan kom á vettvang og engir áverkar sjáanlegir, né var vilji til að leggja fram kæru í málinu. Ofbeldismaðurinn var fullur iðrunar og vildi biðjast afsökunar á gjörðum sínum og sagði að upphaf málsins mætti rekja til tannkremstúpu á baðherbergi heimilisins,“ segir í Facebook-færslu lögreglunnar.

Við frekari spurningar lögreglumanna sagðist sá sem veittist að samleigjanda sínum hafa ætlað að bursta í sér tennurnar fyrir svefninn en þá uppgötvað að tannkremið var búið. Hann bað samleigjandann um að lána sér tannkrem en samleigjandi harðneitaði og vildi ekki láta tannkremstúpuna af hendi.

Við það snöggreiddist sá sem bað um tannkremið með fyrrgreindum afleiðingum.

„Eftir að verkefni lögreglumannanna var lokið á vettvangi hafði annar þeirra á orði við hinn að þetta hlyti nú að hafa verið mjög dýrt tannkrem fyrst að ekki var hægt að fá lánað smávegis af því, án þess þó að í því fælist einhver viðurkenning á viðbrögðum ofbeldismannsins enda voru þau það alls ekki,“ segir lögreglan í Facebook-færslunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×