Innlent

Stefna íslenskra stjórnvalda sögð mannfjandsamleg í garð hælisleitenda

Kjartan Kjartansson skrifar
Árásin átti sér stað á Litla-Hrauni. Hælisleitandinn hefur síðan verið fluttur í fangelsið á Hólmsheiði.
Árásin átti sér stað á Litla-Hrauni. Hælisleitandinn hefur síðan verið fluttur í fangelsið á Hólmsheiði. Vísir/Anton
Ungir jafnaðarmenn gagnrýna dómsmálaráðherra og íslensk stjórnvöld harðlega vegna meðferðar á ungum marokkóskum hælisleitanda sem varð fyrir líkamsárás á Litla-Hrauni í vikunni. Í ályktun segja unglingasamtökin stefnu stjórnvalda mannfjandsamlega í málefnum hælisleitenda.

Hópur fanga gekk í skrokk á ungum hælisleitanda á Litla-Hrauni á þriðjudag. Hælisleitandinn situr í fangelsi vegna ítrekaðra flóttatilrauna. Tennur brotnuðu í manninum og var hann illa marinn eftir árásina.

Í ályktun stjórnar Ungra jafnaðarmanna, ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar, er mál mannsins sagt enn eitt dæmið um vanrækslu íslenskra stjórnvalda og mannfjandsamlega stefnu. Auglýsa þeir eftir „dómsmálaráðherra með samvisku“.

Einnig kemur fram að maðurinn hafi sagst vera sextán ára þegar hann kom til landsins. Tanngreining sem yfirvöld létu gera hafi hins vegar leitt í ljós að hann væri átján ára. Bæði UNICEF og Rauði krossinn hafi óskað eftir að að tanngreiningum af þessu tagi verði hætt til að meta aldur hælisleitenda.

Ungir jafnaðarmenn segjast ítrekað hafa mótmælt hvernig íslensk stjórnvöld vísi börnum sem leiti hælis hér aftur út í óvissuna. Börn eigi að njóta vafans, hvort sem þau eru sautján eða átján ára gömul.

„Ábyrgð er fangelsisyfirvalda, ábyrgð er þingsins en mest er þó ábyrgð dómsmálaráðherra sem rekur mannfjandsamlega stefnu gagnvart fólki á flótta og annarra sem hafa talað um að mæta hælisleitendum með „járnhnefa“. Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að gripið verði til tafarlausra aðgerða og lýsa enn og aftur yfir vantrausti á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra,“ segir í ályktuninni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×