Íslenskur karlmaður var handtekinn við komuna til Íslands frá Spáni í fyrradag grunaður um aðild að fíkniefnainnflutningi. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Maðurinn hefur verið úrskurðaður í viku gæsluvarðhald.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er maðurinn grunaður um aðild að innflutningi þeirra efna sem falin voru í sendingu merktri Skáksambandi Íslands. Tveir menn voru settir í gæsluvarðhaldi vegna þess máls 9. janúar. Annar þeirra var látinn laus í vikunni.
Samkvæmt heimildum blaðsins var þessi sami maður handtekinn á Spáni í síðustu viku vegna gruns um alvarlegt ofbeldisbrot gegn eiginkonu sinni. Honum var sleppt úr haldi þar ytra fyrir viku.
Handtekinn við heimkomu frá Malaga grunaður um meiriháttar fíkniefnainnflutning

Tengdar fréttir

Fíkniefnin í stórum skákmunum
Aðgerðir lögreglu á Hvíta riddaranum í Mosfellsbæ og í húsnæði Skáksambands Íslands eru hluti af umfangsmeira fíkniefnamáli. Ráðist hefur verið í þrjár húsleitir tengdar málinu í vikunni. Forseti Skáksambandsins segir efnin hafa borist í stórum skákmunum.

Áfram í gæsluvarðhaldi grunaður um innflutning á verulegu magni fíkniefna
Annar mannanna sem hnepptir voru í tveggja vikna gæsluvarðhald fyrr í mánuðinum grunaðir um innflutning á verulegu magni fíkniefna var í dag úrskurðaður í áframhaldandi fjögurra vikna gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna.