Bandaríski leikarinn Casey Affleck mun ekki afhenda Óskarsverðlaunin í ár til þeirrar leikkonu sem valin verður sú besta í aðalhlutverki en samkvæmt hefðinni ætti Affleck að veita þau verðlaun í ár þar sem hann var í fyrra valinn besti leikarinn í aðalhlutverki.
Samkvæmt frétt Variety mun Affleck ekki mæta á Óskarsverðlaunin en það var langt því frá óumdeilt þegar hann hlaut verðlaunin í fyrra. Ástæðan var sú að samstarfskonur Affleck sem unnu með honum að myndinni I‘m Still Here árið 2010 sökuðu hann þá um kynferðislega áreitni.
Sjá einnig:
Umdeildur Óskarsverðlaunahafi sakaður um kynferðislega áreitni gegn samstarfskonum
Í kjölfar þess að Affleck fékk Óskarinn í febrúar rifjuðu fjölmiðlar vestanhafs ásakanirnar upp. Rúmu hálfu ári síðar, eða í október 2017, var kvikmyndaframleiðandinn og einn valdamesti maðurinn þá í Hollywood, Harvey Weinstein, afhjúpaður sem maður sem nýtti sér vald til að áreita konur kynferðislega og beita þær kynferðislegu ofbeldi.
Skömmu síðar hófst svo MeToo-byltingin þar sem konur víða um heim hafa stigið fram og lýst kynferðislegri áreitni og ofbeldi af hálfu karlmanna.
Það vakti athygli á Óskarsverðlaununum í fyrra að leikkonan Brie Larson, sem afhenti Affleck styttuna eftirsóttu, klappaði ekki fyrir honum líkt og aðrir í salnum. Þá var hún ísköld þegar hún afhenti honum Golden Globe-verðlaunin í fyrra en ástæðan voru einmitt fyrrnefndar ásakanir á hendur Affleck.
Affleck neitaði ásökunum staðfastlega á sínum tíma og hótaði að kæra þær á móti fyrir rangar sakargiftir en í október 2010 náðu hann og konurnar sáttum utan dómstóla. Í því felst meðal annars að hvorki hann né þær megi tjá sig um málið.
Eftir Óskarsverðlaunin hafi Affleck hins vegar þetta að segja um ásakanirnar í viðtali við Boston Globe:
„Ég trúi því að öll ill meðferð á fólki, sama hvers vegna hún er, sé óásættanleg og viðbjóðsleg, og að allir eigi skilið að það sé komið fram við þá af virðingu á vinnustaðnum og rauninni hvar sem er. Það er ekki mikið sem ég get gert í þessu annað en að lifa mínu lífi eins og ég veit að ég lifi því og að segja frá mínum gildum og reyna að lifa eftir þeim.“