Þrátt fyrir að það muni kólna í dag gerir Veðurstofan ráð fyrir því að norðanáttin komi til með að ganga niður. Það verði léttskýjað á Suður- og Vesturlandi en él norðaustanlands fram eftir degi. Íbúar og gestir suðausturhornsins ættu jafnframt að gera ráð fyrir éljagangi í kvöld. Þá má búast við „talsverðu frosti“ í nótt.
Það mun svo blása úr suðaustri á morgun, vindhraðinn verður á bilinu 8 til 15 m/s og fylgir því slydda eða snjókoma víða um land. Úrkoman verður þó í formi rigningar á Suðurlandi síðdegis. Norðurland sleppur að mestu við úrkomu og kemur til með að hlýna þar að auki. Hitinn verður á bilinu 1 til 5 stig, kaldast í innsveitum eins og svo oft áður.
Helgarveðrið verður svo með ágætum, „rólegheitaveður“ eins og veðurfræðingur orðar það - él á víð og dreif og kólnar.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag:
Suðaustan 8-13 m/s með snjókomu og síðar slyddu eða rigningu, einkum á S- og SA-landi, en þurrt N-lands. Hlýnandi, hiti 0 til 5 stig síðdegis en minnkandi frost norðan heiða.
Á laugardag:
Breytileg átt 3-10 m/s, skýjað og víða dálítil úrkoma. Hiti nálægt frostmarki.
Á sunnudag og mánudag:
Vestlæg eða breytileg átt og él, frost yfirleitt 0 til 5 stig.
Á þriðjudag:
Austlæg átt og dálítil snjókoma eða él S-lands, en þurrt fyrir norðan. Frost 0 til 10 stig, mildast syðst.
Á miðvikudag:
Útlit fyrir norðaustanátt með snjókomu eða éljum á N- og A-landi.
