Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sækist eftir 3. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir sveitastjórnarkosningarnar í vor. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hjálmari.
Þar segist Hjálmar líta svo á að ein mikilvægasta lífskjarabarátta okkar tíma snúist um borgarumhverfið, að það sé hagkvæmt fyrir alla íbúana, heilsusamlegt, öruggt, skjólsælt, aðlaðandi og fjölbreytt.
Hjálmar var kjörinn borgarfulltrúi árið 2014 og skipaði þá þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar.
„Sem formaður umhverfis- og skipulagsráðs hef ég beitt mér í þágu þétts og mannvæns borgarumhverfis. Og við höfum náð árangri. Þar sem áður voru malarlóðir, bílaplön, úr sér gengin athafnasvæði, veghelgunarsvæði og afgangslóðir er nú að rísa fjöldi íbúðarhúsa. Menn tala um mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar. Rauður og grænn þráður er áherslan á mannvænt skipulag, vistvænar og skilvirkar samgöngur og jöfnuð. Það sýna fyrirhuguð borgarlína og samningar borgarinnar við húsnæðisfélög almannasamtaka, námsmanna og aldraðra um íbúðarbyggingar á hagstæðum kjörum næstu árin.“
Hjálmar segir að verkefnin framundan séu stór og spennandi.
„Ég tel mig hafa kraft, reynslu og þekkingu til að vera í hópi þeirra sem leiða þetta starf á næstu misserum. Áfram Reykjavík.“
Hjálmar fær þó nokkra samkeppni í baráttunni um þriðja sætið en Skúli Helgason og Magnús Már Guðmundsson vilja báðir færa sig ofar á lista hjá flokknum. Sabine Leskopbf sækist eftir þriðja til fjórða sæti og Aron Leví Beck, formaður Hallveigar – ungra jafnaðarmanna í Reykjavík, vill einnig þriðja sætið.
