Innlent

Fjórðungur starfsmanna vinnur styttri vinnuviku

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Magnús Már Guðmundsson, borgarfulltrúi og formaður stýrihóps um tilraunaverkefnið.
Magnús Már Guðmundsson, borgarfulltrúi og formaður stýrihóps um tilraunaverkefnið.
Í vor munu um 2.200 af 8.500 starfsmönnum hjá Reykjavíkurborg vinna á bilinu 37 til 39 stunda vinnuviku í stað hefðbundinna 40 stunda. Annar áfangi tilraunaverkefnisins um styttingu vinnuvikunnar hefst á mánudaginn. Magnús Már Guðmundsson, borgarfulltrúi og formaður stýrihóps um tilraunaverkefnið, segir að samstundis muni vinnuvikan styttast hjá flestum þessara starfsmanna.

Vísir verður með beina útsendingu frá málþingi um verkefnið sem hefst klukkan 9.

Magnús segir niðurstöðurnar líta vel út eftir að fyrsta áfanga verkefnisins er lokið. „Við erum að mæla starfsánægju, líkamleg einkenni álags, andleg einkenni álags, starfsanda og fleira,“ segir Magnús. Svo er fylgst með veikindafjarvistum og fleiru.

„Í leikskólanum var veikindahlutfall að lækka um 3-3,5 prósent á milli ára,“ segir hann. Tilgangurinn með áfanga tvö í verkefninu er meðal annars að sjá langtímaáhrif á þá starfsmenn sem taka þátt. „En líka að sjá þetta á öðrum starfsstöðum, eins og búsetukjörnum,“ segir hann.

Magnús segir að hugmyndin að baki verkefninu sé sú að ánægður starfsmaður sé betri starfsmaður. Hann komi úthvíldari og léttari til leiks þegar vinnustundirnar eru færri. Hann skipuleggi sig með þeim hætti að það sé hvatning að vera búin fyrr og þannig hefur reynslan verið.

„Þeir stjórnendur sem hafa verið inni í verkefninu tala um að það hafi dregið úr skreppi,“ segir Magnús. Fólk tímastillir verkefni sín, hvort sem það er að fara í klippingu eða til læknis, út frá frítímanum sem það hefur í stað þess að skreppa í vinnunni. „Yfirmenn geta því gengið að starfsmönnum sínum vísum í húsi,“ segir Magnús.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×