Það er stund milli stríða í veðrinu í dag, frekar meinlaus suðvestanátt með smáéljum vestantil á landinu, en léttskýjað eystra.
Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á heimasíðu Veðurstofunnar. Þar segir að það verði vaxandi sunnanátt í kvöld, og 15 til 25 metrar á sekúndu í nótt, hvassast norðan heiða.
„Víða rigning, jafnvel mikil úrkoma á Suður- og Vesturlandi á morgun með tilheyrandi vatnavöxtum. Hlýnar talsvert, en annað kvöld fer að kólna með slyddu eða snjókomu vestanlands,“ segir í færslunni. Loks segir að stormar séu algengir á Íslandi á þessum árstíma, til dæmis „gerði mikið fárviðri um allt vestanvert landið 3. febrúar 1991 með stórkostlegu tjóni.“
Mikil rigning á morgun
Talsverð eða mikil rigning verður sunnan og vestanlands á morgun, hiti yfirleitt 5 til 10 stig. Slydda eða snjókoma vestantil á landinu annað kvöld og kólnandi veður.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á mánudag: Suðvestan 10-18 m/s og él, en bjartviðri A-lands. Kólnandi, frost 3-10 stig um kvöldið.
Á þriðjudag: Vestlæg átt og minnkandi éljagangur vestantil en bjart eystra. Frost 3 til 15 stig, kaldast í innsveitum norðaustantil. Snýst í vaxandi sunnanátt um kvöldið.
Á miðvikudag: Hvöss sunnanátt og slydda eða rigning, síðan hægari suðvestanátt með éljum og kólnandi veðri, en léttir til austanlands síðdegis.
Á fimmtudag og föstudag: Suðvestanátt og él, en þurrt og bjart á Norðaustur- og Austurlandi. Frost um allt land, talsvert inn til landsins.
