Samþykkt var á formannafundi aðildarfélaga ASÍ sem lauk nú rétt í þessu að kjarasamningar halda. 28 formenn felldu tillögu um riftun en 21 var með. Kosningin fór fram með leynilegri atkvæðagreiðslu á fundinum sem fór fram á Hilton Nordica.
Að loknum fundi formannanna settist samninganefnd ASÍ á fund en hún fer með formlegt vald til að segja upp kjarasamningum. Nefndin ákvað það hins vegar á fundi sínum í morgun að gera niðurstöðu formannafundarins að sinni og er hún því bindandi.
52.890 félagar ASÍ voru á bak við þá formenn aðildarfélaga sem greiddu atkvæði með því að segja upp kjarasamningum og 26.172 félagar á bak við þá sem sögðu nei.
Kjarasamningarnir halda því til áramóta þegar þeir renna út. Á blaðamannafundi forsvarsmanna verkalýðshreyfingarinnar eftir formannafundinn kom fram að næstu skref séu að undirbúa næstu samninga. Þeir boða hörku og segja að staðan sé alvarleg.
Tilkynningu ASÍ vegna málsins má sjá í heild sinni hér fyrir neðan:
Formannafundur ASÍ sem haldinn var í dag, 28. febrúar 2018, samþykkti í atkvæðagreiðslu að segja ekki upp kjarasamningum.
Alls greiddu 49 atkvæði en þeir voru með 79.062 félagsmenn (heilsársstörf) á bak við sig.
Niðurstaða formanna:
Já, vil segja upp 21 (42,9%)
Nei, vil ekki segja upp 28 (57,1%)
Vægiskosning:
Já 52.890 (66,9%)
Nei 26.172 (33,1%)
Í atkvæðagreiðslunni þurfti bæði meirihluta fundarmanna sem fóru með atkvæði á fundinum og meirihluta þess atkvæðavægis sem að baki þeim standa. Þar sem ekki náðist meirihluti fundarmanna var tillaga um uppsögn samninga felld.
Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði munu því gilda til ársloka.
Þeir sem vildu halda í samninginn töluðu m.a. um að aðeins væru 9 mánuðir eftir af samningnum og hann tryggði 3% almenna launahækkun 1. maí og rúmlega 7% hækkun lágmarkslauna. Nota ætti tímann til hausts til að móta kröfugerð og undirbúa næstu kjaraviðræður.
Það var þungt hljóð í þeim sem vildu segja upp og sterk krafa um að verkalýðshreyfingin setti fótinn niður í samfélagi misskiptingar. Stjórnvöld voru harðlega gagnrýnd fyrir að taka til sín ávinning af starfi verkalýðshreyfingarinnar sem hefur lagt mikla áherslu á hækkun lægstu launa, en stjórnvöld tekið að stórum hluta til baka með skerðingu bóta. Úrskurðir kjararáðs og hækkanir á launum æðstu stjórnenda banka og Landsvirkjunar urðu auk þess mörgum fundarmönnum tilefni til gagnrýni.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Kjarasamningar halda

Tengdar fréttir

Ögurstund runnin upp á vinnumarkaði
Kjarasamningar um 100 þúsund manns gætu orðið lausir í dag. Formannafundur ASÍ hefur lokaorðið í þeim efnum.

Formannafundur ASÍ hafinn
Á fundinum fer fram leynileg rafræn atkvæðagreiðsla um uppsögn kjarasamninga.

Forseti ASÍ segir tvísýnt um uppsögn samninga í atkvæðagreiðslu
Gylfi Arnbjörnsson segir forsendubrest samninga frá því í janúar í fyrra enn vera fyrir hendi.