Hann er að fara að byggja upp Box – matarvagna og götumarkað í Skeifunni þar sem „pop up“ verslanir og „street food“ vagnar selja mat og tísku, ásamt því að þarna mun verða bar, skjár sem sýnir leiki í heimsmeistaramótinu í knattspyrnu og svæði þar sem tónlistarmenn geta leikið listir sínar fyrir svöngum og þyrstum lýðnum.

Ætlunin er að Box verði starfandi frá 1. júní til 29. júlí. Markaðurinn verður í Skeifunni á bílastæðinu við Rúmfatalagerinn. Útlitið á að vera hrátt; gámar, pallettur og vagnar.
„Fókusinn er á matinn og þetta „street food“ konsept, við ætlum að biðja alla að leggja metnað í að gera alvöru „street food“. Gera þetta einfalt, verðinu stillt í hóf þannig að þú getir verið að smakka þrjá-fjóra rétti með vinunum. Síðan er hægt að deila þeim í stemmingu og góðri tónlist.“
Box óskar eftir umsóknum á póstfangið info@rvkstreetfood.is frá aðilum sem hafa áhuga, hvort sem það er að vera með matarbás eða „pop up“ verslun.
„Við erum búnir að ræða við þó nokkra aðila sem eru til, en þarna verður pláss fyrir um 15-20 staði, þetta verður þétt – en það verður hægt að koma þarna inn eina helgi eða einn dag, við erum bara að stilla þessu upp. Þetta er tilraunaverkefni sem við ætlum að reyna að gera sem skemmtilegast. Svo er auðvitað markmiðið að kynna fyrir Íslendingum alvöru „street food.“