Undir störfum þingsins í gær boðaði Njáll Trausti að á næstum dögum myndi hann leggja fyrir tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar.
Hann vill að spurningin verði eftirfarandi: Vilt þú að flugvöllur og miðstöð innanlandsflugs, kennslu- og sjúkraflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík uns annar jafngóður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar?

Njáll Trausti segir að mál er varða Reykjavíkurflugvöll hafi verið í mjög slæmum farvegi undanfarið. „Ég er bara að setja fram kröfu um að gefa þjóðinni kost á að kjósa um þetta og að hún eigi þannig möguleika á að segja hug sinn í málinu.“ Algengt er að þingmannamál þurfi að víkja fyrir stjórnarmálum á Alþingi og hljóti því ekki afgreiðslu.
Njáll Trausti segist þó bjartsýnn á að þetta mál geti farið alla leið í þinginu.
„Er maður ekki alltaf bjartsýnn? Þetta er mál af þeirri stærðargráðu að það hafa mjög margir áhuga á að sjá framvindu í þessu,“ segir hann að lokum.